...hún er að fara á ball

...hún er að fara á ball
Erna Hlöðversdóttir sýnir í Kirsuberjatrénu, 9.-19. júní 2018

"Ég hef verið viðloðandi myndlist í yfir tvo áratugi en á þeim tíma hef ég sótt ótal námskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur og Myndlistarskóla Kópavogs hjá mörgum af fremstu myndlistarkennurum Íslands.

Sumarið 2017 sótti ég námskeið í pappamassagerð í Myndlistarskóla Kópavogs hjá Söru Vilbergsdóttur, en hún hefur jafnframt leiðbeint mér í olíumálun undanfarin ár. 

Listformið heillaði mig og í framhaldi hófst kjólagerð sem hefur haft hug minn allan undanfarið ár.

 Kjólarnir eru alls konar og enginn er eins, eins og við konur! Mótaðir í hænsnanet og klæddir pappír sem er ýmist hrár eða málaður. Þeir eru alfarið mínir, hver með sínu sniði og dansa líka ef þeir fá tækifæri til!

Það er einstaklega gaman að halda mína fyrstu einkasýningu hér í þessu fallega og sögufræga húsi. Hér vann móðir mín sem kornung stúlka, hjá vefnaðarversluninni VBK, og velti við ströngum og léreftið sneið. Frá henni hef ég líka lært að þekkja og meta efni, heiti þeirra og áferð."