HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur?

Þrátt fyrir óvissuástand hefur verið unnið að undirbúningi hins árlega viðburðar HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur undanfarnar vikur. Lengi vel leit út fyrir að búið yrði að létta nóg á fjöldatakmörkunum til að hægt væri að halda sýninguna í einhverri mynd með viðeigandi sóttvarnarráðstöfunum og aðgerðum. En eftir nýjustu tíðindi af þróun Covid-19 faraldursins og boð um hertar aðgerðir eru því miður afar litlar líkur á að af sýningunni verði. Endanleg afstaða varðandi sýninguna verður tekin þegar reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um aðgerðir næstu vikur verður tilbúin.

Hér er hægt að skoða kynningarbækling með upplýsingum um þá sem valdir voru inn á sýninguna 2020 og sem fyrr er fjölbreytnin í fyrirrúmi og margt framúrskarandi í boði. Fólk er að sjálfsögðu hvatt til að beina viðskiptum sínum að þessum hópi, þótt ekki verði hægt að koma í Ráðhúsið þetta árið.

Uppfært 6. nóvember 2020:

Tekin hefur verið formleg ákvörðun um að aflýsa sýningunni HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur 2020 vegna Covid-19 faraldursins. Þetta er þungbær ákvörðun en nauðsynleg.