TEKO-VIRKNI

Finnskur starfshópur kynnir ljósmyndir og nytjalist

Sýningin var haldin í sýningarsal  HANDVERKS OG HÖNNUNAR, Aðalstræti 12, Reykjavík og stóð frá 22. maí til 5. júní 2005. Sýnd voru verk eftir sjö einstaklinga og þau eru: Ulla-Maija Ekman, Mikko Pulliainen, Matti Rauhaniemi, Pekka Valle, Sirkka Leikola, Johanna Karvinen og Juha Ruoho. Starfshópurinn samanstendur af fullorðnum einstaklingum með námsörðugleika, sem koma frá Lyhty ry í Helsinki. Lyhty ry er sjálfseignarstofnun sem er allt í senn heimili, skóli, verkstæði og daglegur vinnustaður fyrir fólk með námsörðugleika. Markmiðið er að læra og þróast við skapandi vinnu. Mikil áhersla er lögð á einstaklinginn og að sköpunargáfa hvers og eins fái að njóta sín. Nafn sýningarinnar TEKO-VIRKNI endurspeglar það markmið.

Ljósmyndir á sýningunni eru afrakstur verkefnis sem Pekka Elomaa ljósmyndari setti á laggirnar árið 2002. Verkefnið fólst í því að kenna ákveðnum hópi innan Lyhty ry á fjölbreytta möguleika ljósmyndunar. Ein af meginhugmyndum verkefnisins er að eyða landamærum milli þess sem telst „ eðlilegt” og þess sem telst vera fötlun eða ,,óeðlilegt", með því að nota ímyndunarafl og hlutverkaleiki.

Myndirnar hafa verið sýndar vítt og breitt um Finnland.

Nytjalistin á sýningunni er búin til á lista-og handverkstæðinu Luovilla sem er hluti af Lyhty ry og hefur verið starfrækt í yfir 10 ár. Hver einstaklingur vinnur eftir sínum eigin styrkleika og áhugasviði, markmiðið er að hver einstaklingur hanni, framleiði og komi verkum sínum á framfæri. 

Markmið verkefnisins er að auka hæfni og getu þeirra einstaklinga sem koma að verkefninu. Margir sem eiga við námsörðugleika að stríða eiga erfitt með að tjá sig og bjóða ljósmyndir upp á tjáningu á annan hátt. Menning þeirra er enn frekar ósýnileg og eru sýningar góð leið til þess að komast í samband við fólk og samfélög. 

Meginmarkmiðið með sýningunni TEKO-VIKRNI er að koma fjölhæfum listasamtökum á framfæri sem vonandi eykur skilning á fjölbreyttu framlagi þessa hóps til samfélagsins og mikilvægi þess.

Hlekkur á grein í Morgunblaðinu sem birtist þann 25. maí 2005

Myndir frá sýningunni.