UNDRAVERÖLD KRON BY KRONKRON

Kron by Kronkron er sköpunarverk þeirra Hugrúnar Árnadóttur og Magna Þorsteinssonar. Á tíu árum hafa þau hannað 1200 pör af skóm eða sem svarar einu nýju pari á þriggja daga fresti. Síðan þá hafa þau verið á stanslausum hlaupum; Mílanó, París, Reykjavík, Spánn, Þórsmörk, Portúgal, Mílanó, París, Reykjavík, Spánn, Þórsmörk...

Hugrún og Magni eru par. Þau opnuðu verslunina Kronkron við Vitastíg árið 2004 eftir að hafa rekið skóbúðina Kron á Laugavegi frá árinu 2000. Þar leggja þau sig fram við að para saman ólíka hönnuði sem eiga það sameiginlegt að vera fylgnir sjálfum sér og láta markaðstólin ekki hafa áhrif á sig. Þannig verður til ævintýraheimur þar sem maður getur gleymt sér í fegurðinni, dáðst að handverki og hugmyndaflugi, látið sig dreyma og mátað og spjallað og eignast flík sem komist hefur í gegnum fagurnet þeirra Magna og Hugrúnar. Það geta allir opnað búð en það er galdur að skapa slíkt andrúmsloft og þetta andrúmsloft skilar sér í gegnum þeirra eigin hönnun á skóm, fatnaði og fylgihlutum sem þau hófu framleiðslu á undir merkinu Kron by Kronkron árið 2008.

Skórnir eru framleiddir á Spáni og í Portúgal af afburða handverksfólki með áratuga reynslu og þekkingu. Magni og Hugrún þekkja framleiðsluferlið frá A til Ö og vinna náið með hverjum handverksmanni. Þar sem skórnir eru flóknir í gerð þarf mikla þolinmæði og þrautseigju til að koma þeim í gegnum eins og hálfs árs framleiðsluferli. Á bak við hver par liggur oftar en ekki vinna um fjörutíu handverksmanna. Hvert par er gert úr mörgum litlum pörtum sem hver og einn þjónar sínu mikilvæga hlutverki. Það er því að mörgu að huga til að koma hverju pari af blaði og í gegnum allt ferlið, allt þarf að ganga upp. Tímaramminn er flókinn þegar svo margir handverksmenn koma að hverjum skó. Handverksfólkið tengist oftast ekki á neinn hátt nema að því leyti að hver hefur sínu hlutverki að gegna til þess að skórinn geti litið dagsins ljós.

Grindin að skónum, er fyrsta stigið í mótuninni. Þessi hluti er tímafrekur og kostnaðarsamur þar sem sérfræðingur er á bak við hvern part fyrir sig. Eftir það er mótið komið, sníðavinna hefst og leitin að hinum fullkomna efnivið tekur við. Þarna skapast þessi ákveðni svipur Kron by Kronkron, sem einkennist af óvenjulegri samsetningu lita og áferðar sem hefur verið þeirra DNA alveg frá upphafi. Skórnir búa yfir gleði, frumleika og litríkum ævintýrablæ sem smitast út í tærnar og þaðan um allan líkamann og koma manni í spariskap.

Í tískuheiminum eru skór flokkaðir sem fylgihlutir (e. adornment), fólk er gjarnan mjög ástríðufullt gagnvart skóm og á íslensku er talað er um að vera skósjúkur. Mögulega hefur þetta að gera með það að skór eru ekki háðir vaxtarlagi og flestir standa jafnfætis þegar kemur að skóm. Skór eru það sem við göngum á út í daginn og í gegnum lífið, auðvitað skipta þeir öllu máli.

Sýningin stendur til 18. september 2018.

Viðburðurinn á Facebook