Tendenser 2020

Randi Grov Berger sýningarstjóri
Randi Grov Berger sýningarstjóri

Randi Grov Berger hefur verið ráðin sýningarstjóri „Tendenser 2020“

Samnorræn sýning sem haldin verður 28. mars - 17. júní 2020 í Punkt Ø - Gallerí F 15, Moss, Noregi

Sýningin „Tendenser“ var upphaflega haldin 1971 og var þá haldin árlega og með áherslu á norskt samtíma listhandverk. Sýningin hefur vaxið jafnt og þétt hefur þróast yfir í að verða samnorræn þar sem listhandverki frá öllum Norðurlöndunum eru gerð ítarleg skil. Frá árinu 2016 hefur „Tendencer“ verið haldin annað hvert ár.

Randi Grov Berger hefur verið ráðin sýningarstjóri fyrir 44. Tendenser sýninguna sem haldin verður 28. mars til 17. júní 2020.  Sú sýning verður haldin í samstarfi við norrænu samtökin NNCA (Nordic Network of Crafts Associations) sem HANDVERK OG HÖNNUN er aðili að.

Um sýningastjórann Randi Grov Berger (f. 1982, Stord, Noregi): hún stýrir sýningarsalnum Entrée í Bergen sem hún stofnaði ásamt listamanninum Cato Lølandi árið 2009. Hún er með BFA og MFA frá Academy of Art and Design í Bergen og MFA frá Art in Public Realm at Konstfack, University of Arts, Crafts and Design Í Stokkhólmi.

Randi segir að það sé sér mikil ánægja  og heiður að fá að taka þátt í þessum mikilvæga tvíæringi og sig hlakki til samstarfs við Punkt Ø og NNCA næstu tvö árin. Hún stefnir á að gera forvitnilega sýningu sem reyni á öll skilningarvit. Hennar markmið sé að gera norrænu samtíma listhandverki góð skil á áhugaverðan hátt.

Samtökin NNCA voru stofnuð árið 2010. Markmið þeirra er að stuðla að samstarfi og samtali milli landanna til að styrkja stöðu samtíma handverks og listiðnaðar á Norðurlöndunum. Starfsemi NNCA er tvíþætt: annars vegar eru haldnir fundir þar sem pólitísk, félagsleg og efnahagsleg málefni sem tengjast handverki og listiðnaði á Norðurlöndum eru rædd. Í öðru lagi stendur NNCA fyrir og tekur þátt í verkefnum sem stuðla að kynningu og miðlun á norrænu handverki og listiðnaði á alþjóðlegum vettvangi.
NNCA er skipað: Danske Kunsthåndværkere & Designere (Danmörk); HANDVERK og HÖNNUN (Ísland); Konsthantverkscentrum (Svíþjóð); Konstnärernas Riksorganisation (Svíþjóð); Norske Kunsthåndverkere (Noregur); Norwegian Crafts (Noregur) and ORNAMO  (Finnland).