Safnasafnið - opið í sumar

12 árum eftir að safnið opnaði í núverandi mynd og 24 árum eftir stofnun þess opnar safnið glæsilegar sumarsýningar og í sumar koma út þrjú rit á vegum safnsins.

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17 fram til 1. september

Fuglasýningin stendur annað árið í röð þar sem sýndir eru 360 fuglar úr safneigninni. Í tilefni af sýningunni kemur út Sýnisbók III, þar sem sjá má úrval verka frá sýningunni og úr safneign.
Haldið er upp á 20 ára samstarf safnsins við Valsárskóla með verkefninu Heimabyggð, en í því taka líka þátt elstu börnin í Leikskólanum Álfaborg á Svalbarðseyri.
Í Versluninni í ár er sýndur upphlutur sem Magnhildur Sigurðardóttir saumaði samkvæmt hugmynd sem Sigurður Guðmundsson málari kynnti árið 1870. Þá eru sýnd um 230 ilmvatnsglös sem Sara Hólm á Akureyri gaf safninu 2018. Glösin eru frá helstu tískuhúsum veraldar og hönnuð af frægum listamönnum, þar á meðal Pablo Picasso.
Atli Már Indriðason listamaður listahátíðarinnar List án landamæra árið 2019 sýnir málverk og teikningar í Suðurstofu og í sama sal er einnig sýning á vefnaði sem Guðrún Hadda Bjarnadóttir frá Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit vann eftir stækkuðum teikningum sona sinna og sonarsona.
Auður Lóa Guðnadóttir, Eygló Harðardóttir og Steingrímur Eyfjörð sýna í Norðursölum. Auður leikur sér á landamærum hins hlutlæga og huglæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika.
Sýning Eyglóar heitir Grímur, hráefni eins og nýr eða endurnýttur pappír, litríkt fundið efni, plast, viður, grafít og gler, leggja grunn að hugmyndum hennar og eru drifkraftur til að kanna miðilinn hverju sinni. Steingrímur sýnir verkið Kynjamyndir en það var fyrst sýnt á Feneyjartvíæringnum árið 2007, þar sem Steingrímur var fulltrúi Íslands.

Árið 2015 gaf fjölskylda Þórðar Guðmundar Valdimarssonar – Kiko Korriro Safnasafninu meginhluta ævistarfs hans, um 120.000 verk. Nú í sumar eru sýndar klippimyndir sem eru fengnar að láni frá ættingjum, auk verka úr safneign, m.a. teikningar, skúlptúrar og ljósmyndir sem voru teknar af Þórði þegar hann dvaldi ungur maður í Los Angeles og hitti nokkrar af þekktustu kvikmyndastjörnum þess tíma. Undanfarin fjögur ár hefur Níels Hafstein kannað ítarlega hluta af myndverkum Þórðar og birtist rannsókn hans í bók sem gefin er út í tengslum við sýninguna.
Sýnd verða málverk eftir Valdimar Bjarnfreðsson eða VAPEN sem var óvenjulegur myndlistarmaður. Við myndsköpun sína beitti hann sömu aðferðum og þegar spáð er í bolla. Hann hélt yfir tug málverkasýninga og bar ein þeirra hinn skemmtilega titil „Kaffibollinn er mitt Internet“.
Rúna Þorkelsdóttir sýnir fataefni sem unnið var í samvinnu við hönnuðinn Tao Kurihara hjá tískuhúsinu Comme des Garcons en efnin eru unnin útfrá bókverkinu Paperflowers eftir Rúnu.
Safnið er í Norrænu og evrópsku samstarfi og þann 13. júlí opnar sýningin JAHÉRNA! á safninu. JAHÉRNA! er norræn sýningarröð sem ferðast milli Finnlands, Danmerkur, Svíþjóðar, Íslands og Noregs frá 2018 til 2020.
Brúðusafnið er á sínum stað það er leikfangasafnið í skúffu safnstjórans líka. Bókastofan er ríkulega búin og verk Ragnars Bjarnasonar fagna gestum hvert sumar.

Nánar um viðburðinn á Facebook