Neysla, nýting og nýsköpun

Neysla, nýting og nýsköpun

Þriðjudaginn 29. október kl. 20 heldur Ásdís Jóelsdóttir lektor í textíl við menntavísindasvið HÍ erindi hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í Nethyl 2e. Erindið fjallar um neyslu, nýtingu og nýsköpun í textíl og tengingu þess við sjálfbæra þróun og umhverfisvitund. Fjallað er um tískumarkaðinn, sporin í framleiðslu textílafurða, fatasóun og það sem hefur mótað okkur sem neytendur og hvernig við getum stundað ábyrga og siðræna neyslu. Í því samhengi hversu nauðsynlegt er að þekkja til flokkun hráefna sem og stærða-, þvotta- og meðferðamerkinga og hvað þurfi að hafa í huga við kaup á textílafurðum. Áhersla er lögð á grunnatriði við gerð fatnaðar og annarra textílafurða og hvernig hægt sé að framlengja líftíma þeirra með því að gefa, skipta eða deila, gera við og bæta, breyta og skreyta eða skapa nýtt. Í innihaldinu er horft til markmiða í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það er Funda- og fræðslunefnd HFÍ sem stendur fyrir viðburðinum. Aðgangur 1.000 kr. / 500 kr. fyrir félagsmenn HFÍ – Kaffi innifalið.