Menningarnótt

Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar og verður haldin í tuttugasta og annað skipti þann 19. ágúst. Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum og söfnum, fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum.  

Áherslusvæðið í ár er Hlemmur og þar í kring en mikil gróska og uppbygging hefur verið á þessu skemmtilega svæði. Yfirskrift hátíðarinnar er „Gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.

Menningarnótt markar upphaf menningarárs borgarinnar þegar söfn, leikhús, menningarstofnanir og listamenn hefja sína haust- og vetrardagskrá. Markmið hátíðarinnar er að hvetja til menningarþátttöku með því að reiða fram fjölbreytt og ríkulegt framboð af hinum ýmsu viðburðum. Dagskráin er þverskurður af menningar- og listflóru borgarinnar og eru viðburðir hátíðarinnar gestum að kostnaðarlausu og þar með séð til þess að allir gestir geti notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru.

Dagskráin á Menningarnótt