Fuglar og tilfinningarið

"Fuglar og tilfinningarið" er heiti sýningar Margrétar Rutar Eddudóttur sem hefur verið opnuð í SÍM salnum, Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík.

Margrét vinnur að mestu með líkamann í verkum sínum, einkum kvenlíkamann, þar sem hún tjáir iðulega einhverskonar valdatogstreitu í feminískum skilningi. Hún veltir iðulega fyrir sér hugmyndum um það sem telst kvenlægt og karllægt.

Verkin á sýningunni eru teikningar, skúlptúrar og textílverk. Margrét hóf að nota tækni í flossi (e. punchneedle embroidery) síðasta sumar. Eftir að hún byrjaði að vinna með textíl var ekki aftur snúið.

“Miðað við þá hugmyndafræði sem liggur að baki flestra verka minna var það mjög rökrétt þróun að ég notist við eitthvað sem hefur öldum saman talist kveniðja.”

Nýjustu verk hennar hafa sum tekið á sig frekar abstrakt mynd, þá sérstaklega teikningarnar, sem halda þó líkamlegum eiginleikum sínum. Sum verkanna virðast vera blanda af reðurtáknum, þörmum eða einhverskonar innra lífi. Hún kallar þessar myndir sjálf "Emotional skwigglery" og nokkur verkanna bera titlana "Emotional wieners".

Margrét Rut Eddudóttir er fædd 1981 og kláraði fornám í Myndlistaskóla Reykjarvíkur árið 2007. Árið 2010 útskrifaðist hún með BA í myndlist frá LHÍ. Fyrsta einkasýning hennar var haldin í Deiglunni á Akureyri árið 2011. Frá 2014 hefur hún haldið árlegar heimasýningar á heimili sínu í Vesturbænum. Margrét er nú búsett í San Francisco þar sem hún býr ásamt eiginmanni og börnum.

40% af allri sölu á sýningunni rennur til IRC (international Rescue Committee). Einnig verður boðið að kaupa eftirprentanir sem verða undirritaðar og í takmörkuðu upplagi.

Sjá nánar um sýninguna á vef SÍM og einnig á Facebook