ÐYSLEXTWHERE

Lifandi sölusýning í anddyri Hönnunarsafns Íslands

ÐYSLEXTWHERE er lifandi sölusýning þar sem vöruhönnuðurinn Hanna Jónsdóttir hefur komið sér upp aðstöðu í anddyri Hönnunarsafnsins og vinnur hér næstu vikurnar að verkefninu ÐYSLEXTWHERE. Verkefnið er samstarfsverkefni Hönnu og Ingrid Brandth frá Noregi. Þær hafa framleitt og selt handprjónaðar húfur frá 2008. Það sem einkennir húfurnar er texti með stafsetningarvillum sem er algert tabú, sérstaklega í handverki.

„Ég byrjaði á þessu þegar frændi minn bað mig að prjóna fyrir sig venjulega ullarhúfu. Ég var stödd á Hornafirði en stundaði þá nám í Design Academy Eindhoven og vildi fá að prjóna eitthvað út í húfuna. Við komum okkur saman um orðið Eystrahorn, nafn bæjarblaðsins á Hornafirði, og einnig heitið á tilkomumesta fjallinu fyrir austan, en þegar ég teiknaði upp munstrið hljóp í mig púki. Ég prjónaði Eistrahorn í húfuna og frændi minn átti ekki til orð þegar hann sá það. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að ég hefði sett villuna viljandi inn til að vekja spurningar og umtal og að hann gæti líka verið viss um að það ætti enginn annar svona húfu. Upp úr þessu varð til lína af húfum.“

Nánar hér