Dæmisögur – Vöruhönnun á 21. öld

Samsýning sex vöruhönnuða, Dæmisögur – Vöruhönnun á 21. öld, hefur verið opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum.

Sigríður Sigurjónsdóttir sýningarstjóri hefur valið nokkur framúrskarandi verkefni til sýningar sem hvert um sig endurspeglar með skýrum hætti ólík viðfangsefni vöruhönnunar. Hönnuðirnir voru valdir með það í huga að gefa innsýn í helstu strauma og stefnur í faginu á Íslandi síðustu ár. Áherslurnar eru upplifun, handverk, staðbundin framleiðsla, efnisrannsóknir, hreyfanleiki og fjöldaframleiðsla. Verkefnin sýna þau tækifæri sem samfélaginu standa til boða með því að nýta krafta skapandi hugsunar. 

Þátttakendur og áherslur:

Upplifun – Unnur Valdís Kristjánsdóttir vöruhönnuður setti flothettu sína á markað árið 2011. Flothettan er dæmi um einfalda hugmynd sem byggir á rótgróinni baðmenningu Íslendinga og hefur leitt til nýsköpunar í ferðaþjónustu og heilsueflingu. www.flothetta.com

Handverk – Brynjar Sigurðarson, vöruhönnuður og listamaður, sýnir húsgöng, teikningar skissur og fleira. Brynjar hefur kynnt sér handverk sjómanna og notar aðferðir þeirra við að hanna verk sín. Brynjar býr og starfar í Berlín og hefur hlotið virt evrópsk verðlaun fyrir hönnun sína.www.biano.is

Staðbundin framleiðsla – Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður rannsakar umhverfi sitt með hjálp hversdagslegra nytjahluta. Á sýningunni má sjá nokkra af þeim hlutum sem hún hefur hannað – en hún er þekkt fyrir að setja efni og tækni í óvæntar aðstæður. Íslenskt landslag hefur haft mikil áhrif á verk hennar. www.tinnagunnarsdottir.is

Efnisrannsóknir – Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuður ásamt Ólöfu Erlu Bjarnadóttur keramiker og Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi mynda teymi sem rannsakar íslensk jarðefni með það að markmiði að búa til íslenskt postulín. Verkefni sitt kalla þau Leitin að íslensku postulíni. Á sýningunni verður gefin innsýn í ferðalag þeirra. www.porcelain.is

Hreyfanleiki – Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur. Fyrirtækið var stofnað árið 1971 og hefur nú á að skipa 3.000 starfsmönnum víða um heim. Á sýningunni má sjá nýjustu afurð þess, Pro-Flex gervifótinn, sem er fyrsti fóturinn af nýrri kynslóð koltrefjafóta. Fóturinn gerir notendum betur kleyft en áður að ganga eðlilega. www.ossur.is

Fjöldaframleiðsla – Sigga Heimis vöruhönnuður hóf að hanna vörur fyrir Ikea árið 1999 og hefur síðan öðlast mikla innsýn inn í framleiðsluferli hluta. Á sýningunni er hönnunarferlinu gerð skil, allt frá Euro-vörubretti, sem vörurnar þurfa að passa á, til allskyns gæðaprófa sem þær þurfa að standast áður en þær fara í sölu. www.siggaheimis.com

Listasafn Reykjavíkur býður upp á fjölbreytta viðburði í tengslum við sýninguna; leiðsagnir, fyrirlestra og smiðjur fyrir unga sem aldna. Upplýsingar má nálgast á heimasíðu safnsins.