BÓK – list og leikur

Þann 10. ágúst var sýningin BÓK – list og leikur opnuð í Listasal Mosfellsbæjar. Þar sýna hjónin Guðlaug Friðriksdóttir og Ragnar G. Einarsson fjölbreytt verk. Guðlaug og Ragnar eru bæði menntuð í bókbandi og Guðlaug auk þess í myndlist. Ragnar er þriðja kynslóð bókbindara og saman reka hjónin bókbandsstofuna Bóklist í Mosfellsbæ. Þau hafa haldið fjölmargar sýningar bæði saman og hvort í sínu lagi.
Verkin á BÓK – list og leikur eru af ýmsum toga allt frá klassískum blómamyndum til logandi bóka, frá dúkristum til olíuverka sem máluðu sig sjálf. Hér fer saman mikil hugmyndaauðgi og vandað handverk sem mun vekja bæði furðu og aðdáun. 
 
Síðasti sýningardagur er 5. september.
Opið er kl. 12-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum.
Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2.
Gott hjólastólaaðgengi er að salnum.