Sýningin „hring eftir hring” var samvinnuverkefni HANDVERKS OG HÖNNUNAR og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi. Markmiðið með þessu verkefni var að vekja athygli á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og þeim mikla menningararfi íslenskra kvenna sem þar er geymdur og alltof fáir hafa séð og notið. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi er eina safn sinnar tegundar á Íslandi. Munir safnsins mynda nokkrar ólíkar og sjálfstæðar sýningar auk þess sem ný sýning textíllistafólks er opnuð á hverju ári.
Hugmyndin að sýningunni varð til í tengslum við 135 ára árstíð Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981). sem var árið 2008. Í tilefni af 135 ára fæðingarafmæli Halldóru á sl. ári var haldið málþing þar sem fjallað var um nokkra þætti úr lífi og starfi Halldóru sem tengjast umbreytingu á hlutverki og menningu kvenna á Íslandi á síðustu öld. Einnig var ákveðið að í samvinnu við HANDVERK OG HÖNNUN að bjóða textíllistafólki að taka þátt í að vinna listmuni sem hefðu beina skírskotun til þessa efnis og Heimilisiðnaðarsafnsins. Sumarsýning safnsins 2009 var afrakstur þeirrar vinnu. HANDVERK OG HÖNNUN sá um að velja sýnendur og Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri HANDVERKS OG HÖNNUNAR var sýningarstjóri. Valdar voru þrjár ólíkar listakonur þær Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Kristveig Halldórsdóttir og Rósa Helgadóttir. Öll verkin sem þær unnu höfðu beina skírskotun til Halldóru Bjarnadóttur og Heimilisiðnaðarsafnsins og voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna.