- 9 stk.
- 05.12.2017
Rendur er nýtt hönnunarfyrirtæki stofnað af þeim Hildi og Björgu. Rendur hefur að leiðarljósi að framleiða gæða vörur þar sem mismunandi samspil efnis, hönnunar og handverks gerir hvert stykki einstakt. Rendur notar ónotað umfram efni og afganga í stað þess að stuðla að meiri framleiðslu og hefur þannig jákvæð áhrif á umhverfið. Rendur vinnur með handverksfólki á Íslandi og nýtir þekkingu þeirra sem má rekja til gamalla hefða. Rendur ætlar að láta gott af sér leiða í formi gjafa af eigin framleiðslu. Rendur framleiðir skemmtilegar, litríkar og handunnar nytjavörur sem krydda hversdagsleikann. Efniviðurinn er garn, efni, tölur og í raun allt efni sem fellur til inni á heimilum og hjá fyrirtækjum. Vörurnar eru t.a.m fatnaður, grímubúningar, leikföng og innanstokksmunir sem eru handgerðar á Íslandi. Nýtnin vísar í fyrri tíma þegar ekkert var látið fara til spillis. Vörurnar endurspegla sköpunargleðina sem er driffjöður fyrirtækisins en hugmyndirnar og samstarfsfólkið stjórnast af því efni sem fyrirtækinu áskotnast. Varan og framleiðslan er því óaðskiljanleg. Línan frá Röndum sem sýnd er Á skörinni er prjónalína fyrir leikskólabörn sem samanstendur af peysum, krögum, lambhúshettum, húfum, vettlingum og sokkum. Flíkurnar eru útfærðar í samvinnu við handverkskonur sem síðan prjóna eftir hönnun Randa.