- 8 stk.
- 22.01.2018
Verkin á sýningunni eru eftir Sissu (Sesselju Valtýsdóttur f. 1944) og þetta hennar fyrsta einkasýning. Sissa hefur um langt árabil fengist við handverk og hannyrðir og ræðst sjaldan á garðinn þar sem hann er lægstur. Fyrir nokkrum árum sá Sissa falleg teppi hjá systur sinni sem hún gerði úr bútum sem til féllu. Bútar þessir kölluðu á Sissu sem fékk þá í sínar hendur og hóf að sauma í þá blómamyndir og útbúa sinn eigin blómagarð. Upphaflega áttu bútarnir eingöngu að vera æfing en þar sem þetta var svo óendanlega gaman, urðu bútarnir tvisvar sinnum fjörtíu að tölu og enduðu sem tvær blómabreiður 200x130 cm að stærð sem nú verða sýndar á Skörinni. Blómin eru öll saumuð fríhendis eins og Sissu finnst þau fallegust, en blómamyndir og teikningar hafðar til hliðsjónar. Blómabreiður Sissu eru frá upphafi hugsaðar sem fallegar ábreiður sem dætur hennar gætu yljað sér undir og notið þess að vera umvafðar blómum þar sem hvert spor er gert af ást og væntumþykju. Nú eru tvö teppi fullgerð og eitt eftir, þar sem dæturnar eru þrjár. Einnig voru á sýningunni handbróderaðir púðar eftir Sissu. Sýningin stendur frá 3. til 22. maí 2013.