Ypsilon

Ný íslensk hönnunarverslun í Kvosinni.

Þann 13. júlí mun YPSILON, ný hönnunarverslun, á 2. hæð Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Aðalstræti 2 verða opnuð.

Verslunin er rekin af fimm hönnuðum og einum myndlistarmanni, en á bak við YPSILON standa merkin AND ANTI MATTER, USEE Studio, KOLBRUN og TANJA LEVÝ.

„YPSILON er samvinnuverslun, fegurðarmusteri og skínandi geimskip í íslenskri hönnunarflóru. YPSILON selur vörur, YPSILON framleiðir vörur, YPSILON er samsetning sex einstaklinga sem saman mynda eina veröld, fallegri en raunveruleikann.“ Verslunin kemur til með að selja flíkur fyrir fólk, ljós skúlptúra, ilmvötn, tímarit, skartgripi, heimilisprýði og ýmislegt fleira.

Nánar um merkin á bak við YPSILON: 

AND ANTIMATTER / OG ANDEFNI (&AM) er skapandi vinnustofa stofnuð veturinn 2016 af elskendunum og samstarfsmönnunum Þóreyju Björk Halldórsdóttur og Baldri Björnssyni. &AM vinna með hluti og upplifanir á bili lista og hönnunar. Þau eru sannfærð um að staðir og fólk þurfi á fagurfræðilegu notagildi og nytsamlegum undarlegheitum að halda í tilveru sína. Stofnelskendur &AM vinna verk sín með því að samtvinna upplifanir og hæfileika hvors annars í nýjar nálganir. Þórey Björk er fatahönnuður að mennt en hefur einnig unnið við viðburðastjórnun, útlitshönnun og stílíseringu auk þess að koma að rekstri fyrirtækja. Baldur er myndlistar- og raftónlistarmaður, hann hefur unnið sem grafískur hönnuður og bílastæðavörður en einnig gefið út bækur og hljómplötur.

USEE STUDIO standa Helga Björg Kjerúlf og Halla Hákonardóttir. Studíóið vinnur út frá ólíkum viðfangsefnum og fær efniviðurinn oftar en ekki að ráða för. Úrkast fyrirtækja og stofnana er meginefniviður hönnuðanna sem og varningur í verslunum hjálparstofanna. Í hönnunarferlinu er lögð áhersla á tilraunamennsku og rannsóknir á efniviðnum. Með þessu móti myndast rými til tilrauna, sköpunar og tjáningar sem leiðir af sér sviðsmyndir, flíkur, skartgripi, innsetningar og eða verk sem aðeins eru framleidd í litlu upplagi. USEE STUDIO setur sér engin takmörk og fyrir vikið er ekki unnið út frá ákveðnu fagi eða grein, heldur er hugmyndasköpun látin ráða för og unnið út frá þeim tækifærum sem gefast.

KOLBRUN er sköpunarverk Kolbrúnar Ýrar Gunnarsdóttur fatahönnuðar, stofnað árið 2012 í Barcelona. KOLBRUN er „slow fashion“ merki og er umhverfisvitund og gagnsæi mikilvægur þáttur í hönnuninni. 

IIDEM er samstarfsverkefni Kolbrúnar og Helgu Mogensen skartgripahönnuðar, saman gera þær stílhreint silfurskart. Allar vörur eru handunnar, með gæða umhverfisvænum efnum og mikilli ást. Umhverfisvænar vörur eru ekki einungis skylda hönnuðarins heldur einnig tækifæri til að bregðast við þörfum viðskiptavinarins um gæði á umhverfis- og siðferðilegan hátt ... Less is more!

Tanja Levý er fata- og textílhönnuður sem leggur áherslu á leikandi munsturgerð, skipulagða óreiðu, þægindi og afslöppuð snið. Hennar helsti drifkraftur er forvitni þvottavélaheilinn hennar sem aldrei stoppar. Hún nýtir þráhyggjuna sem hann býr til í rannsóknarvinnu verka sinna. Hún nýtir rannsóknarvinnu sína einnig til þess að hitta og hefja samstarf með fólki sem vekur áhuga hennar og veitir henni innblástur. Húmor einkennir verk Tönju iðulega, þó svo að hún taki verkum sínum alvarlega telur hún að það sé mikilvægt að sjá húmorinn í hversdagsleikanum.

Hönnunarmiðstöð Íslands tók við húsinu við Aðalstræti 2 af Höfuðborgarstofu og Upplýsingamiðstöð ferðamála með það að markmiði að reka líflega hönnunarmiðstöð í miðborginni. Markmiðið með slíkri hönnunarmiðstöð er að efla ímynd skapandi miðborgar og styrkja stöðu hönnunar í hjarta Reykjavíkur. Samningurinn við YPSILON um verslun með íslenska hönnun er hluti af þessari áætlun. Með opnun YPSILON á 2.hæð og Akkúrat á 1. hæð verða því tvær verslanir sem selja íslenska hönnun í húsakynnum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

YPSILON á Facebook

YPSILON á Instagram