YARM hlaut Skúlaverðlaunin 2017

Kanínan er prjónuð úr þykku garni sem Erla Svava spinnur og þæfir sjálf.
Kanínan er prjónuð úr þykku garni sem Erla Svava spinnur og þæfir sjálf.

YARM hlaut Skúlaverðlaunin 2017

Skúlaverðlaunin 2017 á sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur voru afhent í gærkvöldi.

Skúlaverðlaunin 2017 voru afhent í gær á fyrsta opnunardegi sýningarinnar Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verðlaunin hlaut Erla Svava Sigurðardóttir en hún hannar og framleiðir undir merkinu YARM. Verðlaunin hlaut hún fyrir prjónaða kanínu fyrir börn. Kanínan er stór og prjónuð með höndunum úr mjög grófu/þykku garni sem Erla Svava spinnur og þæfir sjálf. Kanínan er hugsuð sem fallegur hlutur í barnaherbergið með mikið notagildi en hún þolir heilmikið hnoð og hnjask.

Að auki var veitt ein viðurkenning en hana hlaut Inga Birna Friðjónsdóttir sem hannar undir merkinu UNGI by The Bomber Factory. Hún hlaut viðurkenninguna fyrir barnajakka sem eru saumaðir úr endurunnum efnum.

Skúlaverðlaunin eru styrkt af Samtökum iðnaðarins og var það Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI sem afhenti verðlaunin. 

Sýningin Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur er haldin dagana 23.-27. nóvember og eru þátttakendur 55 talsins. Þeir sem valdir voru til þátttöku í sýningunni gátu tilkynnt til HANDVERKS OG HÖNNUNAR nýja vöru í verðlaunasamkeppni um besta nýja hlutinn.  Skilyrðin voru að hlutirnir  máttu hvorki  hafa  verið sýnis né sölu opinberlega fyrir sýninguna í Ráðhúsinu. Tæplega tuttugu  tillögur bárust og faglega valnefnd skipuðu Ragna Fróða textíl- og fatahönnuður og Anna Þórunn Hauksdóttir vöruhönnuður.

Verðlaunin eru kennd við Skúla Magnússon fógeta sem er frumkvöðull smáiðnaðar í Reykjavík. 

Skúlaverðlaunin eru styrkt af Samtökum iðnaðarins Samtök iðnaðarins