Sýningin verður opin milli kl. 13:00 og 18:00 frá föstudeginum 11. maí til og með mánudeginum 14. maí. Verkin á sýningunni eru eftir 114 nemendur sem stunda samfellt nám í dagskóla.
Á listnámsbraut eru nemendur að búa sig undir háskólanám í list- og hönnunargreinum, annars vegar í eins árs fornámi sem ætlað er nemendum með stúdentspróf og hinsvegar á tveggja ára braut sem lýkur með stúdentsprófi. Á sýningunni sýna nemendur á fyrra ári listnámsbrautar verk sem þeir hafa unnið í íslenskuáfanga við skólann en útskriftarnemendur úr eins og tveggja ára námi við deildina sýna sjálfstæð lokaverkefni.
Nemendur á keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut sýna sjálfstæð verkefni en um er að ræða tveggja ára námsbrautir í myndlist, hönnun og listhandverki ætlaðar nemendum með stúdentspróf af listnámsbraut.
Námið miðar að því að dýpka fagþekkingu nemenda, auka víðsýni þeirra og undirbúa þá fyrir vinnu sem sjálfstæðir listamenn eða hönnuðir. Námið er skilgreint sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi en er jafnframt ígildi áfanganáms á háskólastigi þar sem það hefur verið metið til 120 ECTS eininga af samstarfsskólum Myndlistaskólans erlendis.
Verið hjartanlega velkomin!
Opnunartímar:
10. maí kl. 14-17 - OPNUN
11. maí kl. 13-18
12. maí kl. 13-18
13. maí kl. 13-18
14. maí kl. 13-18