Uppspuni frá rótum!

Uppspuni frá rótum!

Á prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins í Nethyl 2e fimmtudagskvöldið 5. október kl. 20 kynnir Hulda Brynjólfsdóttir UPPSPUNA smáspunaverksmiðju sem nýlega hóf starfsemi á Tyrfingsstöðum. Í verksmiðjunni er framleitt prjónaband í sauðalitunum úr fallegri sérvalinni og ólitaðri íslenskri ull. Kostir verksmiðjunnar eru þeir að hægt er að spinna fjölbreytt prjónaband úr litlu magni af ull í einu sem gefur möguleika á að framleiða band af tilteknu sauðfjárbúi eða jafnvel tiltekinni kind. Fyrstu afurðirnar eru Hulduband og Dvergaband og verða þær til sýnis og sölu á prjónakaffinu.

Í meira en tíu ár hefur Heimilisiðnaðarfélag Íslands staðið fyrir mánaðarlegu prjónakaffi. Fyrstu árin voru samkomurnar á kaffihúsum út um bæinn en undanfarin misseri hefur prjónakaffið verið í þeirra eigin húsnæði í Nethyl 2e fyrsta fimmtudagskvöld í mánuði. Húsið opnar kl. 19 en kynningar hefjast kl. 20. Ljúffengar kaffiveitingar á vægu verði - aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.