Týpískt | letur og myndverk

Á sýningunni týpískt bregður fyrir letri af ýmsum stærðum og gerðum. Handskrifað, tölvuritað, málað, krotað og párað með verkfærum eins og pennum, penslum, pappír, skurðarhnífum, tölvu, tússi eða hvaðeina sem nýtist til listsköpunar eða listrænnar tjáningar.

Þegar við segjum að eitthvað sé týpískt þá er átt við eitthvað sem er dæmigert og segja má að það sé dæmigert fyrir listahópinn Tákn og teikn sem samanstendur af grafískum hönnuðum að heillast af letri eða týpógrafíu sem listformi. En týpógrafía er notað sem samheiti yfir leturfræði og í stafa- og leturgerð lýsir orðið týpa ákveðnum flokkum leturs. Týpógrafía kemur upplýsingum hins talaða orðs í myndrænt form.

Rithöndin er eins og hluti af persónuleika manna og því langar sem flesta að skrifa eða draga vel til stafs en í raun má segja að stafir séu tákn. Tákn sem segja sögur og hafa fylgt manninum frá því ritaðar sögur fara af honum.

Þó svo að verkin á sýningunni séu í meirihluta týpógrafísk eru einnig önnur myndverk, ný og eldri verk í bland, frá hópnum Tákn og teikn.

Listahópurinn Tákn og teikn skipa átta myndlistar- og hönnunarmenntaðar konur:

Edda V. Sigurðardóttir 
Elsa Nielsen 
Friðrika Geirsdóttir 
Helga Gerður Magnúsdóttir 
Kristín Edda Gylfadóttir 
Kristín Þorkelsdóttir 
Sigríður Rún 
Soffía Árnadóttir

Hópurinn var stofnaður fyrir ári síðan og hittist reglulega til að deila hugmyndum á skemmtilegum og faglegum forsendum, með það að markmiði að halda sýningar.
Fyrsta sýning hópsins „Leturverk” var haldin á Mokka á hönnunarmars 2016. Þó er það ekki endilega markmið að öll verk eða sýningarnar verði helguð letri. Hópurinn er fjölbreyttur og aldursbil félaga breitt sem og reynsla þeirra. Stóra sameiginlega áhugamál hópsins er hönnun og list og að nýta tækifærin til sköpunar.

Sýningin stendur til 30. október 2016

Menningarhús Gerðubergi