TRANSIT

Opnun sýningar Daníels Magnússonar TRANSIT er laugardaginn 22. febrúar kl. 16.00 í Hverfisgalleríi.

"Verkin eru frá árunum 2010-2019. Í þessum verkum er ég að einbeita mér að því sem ég tel nægjanlega merkingarbært. Það mætti líkja þessum myndum við slagverksdyn sem hefur stöðvast. Ekki það að ég hafi einhverja sérstaka þekkingu á þeim hljóðfærum aðra en þá sem hlustandi á tónlist. Myndirnar eru úr gönguferðum og þess vegna er kannski rétt að nefna gönguhraða sem ráðandi takt. Hver vinkill fyrir sig er valinn til að hann fjalli á eins knappan hátt og hægt er um fyrirmyndina sem afmarkast af formatinu og því sem vinkilinn spannar. Þannig er takmarkið ávallt að velja staðsetninguna, fyllingu og byggingu eða kompósisjón það naumt að frásögnin haldist innan „taktsins“ og að takturinn sé þó nægjanlegur til að frásögnin sé viðunandi merkingarbær.

Myndirnar eru ekki um atburð eða ástand beinlínis, þær eru án vísunar í fagurfræði á sama hátt og þær vísa ekki til sérstakrar og upphafinnar frásagnar. Markmiðið er frekar að upphefja veikt og almennt „baksuð“ í það að verða slagverkstaktur með frásögn. Ég hef stundum kallað þetta límið í samfellunni. Í myndunum ríkir því óvissuástand eða bilið milli þess að eitthvað hafi gerst og þess að eitthvað muni gerist. Sú mögulega eða ómögulega atburðarás er þó ekki endilega háð merkingunni því að hún gæti allt eins verið vísun í þennan skort." Daníel Magnússon

Daníel Þ. Magnússon (1958) útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1987 og vakti þá strax athygli fyrir áhugaverð verk þar sem íslensk menning var oftar en ekki til umfjöllunar. Hann er einkum þekktur fyrir skúlptúra og ljósmyndaverk. Daníel á að baki annan tug einkasýninga ásamt fjölda samsýninga bæði innanlands og utan.

Frekari upplýsingar veitir Sigríður L. Gunnarsdóttir í síma 864-9692 eða í tölvupósti sigridur@hverfisgalleri.is