ÞRÍUND síðasta sýningarhelgi

Á síðasta sýningardegi núna á sunnudaginn munu Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker og Harpa Þórsdóttir sýningarstjóri ganga um sýninguna Þríund. Auk verka Bjarna er til sýnis fatnaður eftir Anítu Hirlekar fatahönnuð og skartgripir Helgu Ragnhildar Mogensen skartgripahönnuðar. Samhljómur þriggja hönnuða.

 

Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður, Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker og Aníta Hirlekar fatahönnuður hafa vakið verðskuldaða athygli á síðustu misserum fyrir verk sín. Hönnuðurnir eiga það sameiginlegt að fara sínar eigin leiðir til að kanna til hlítar takmörk efnisins sem þau vinna með og er niðurstaðan oft mjög kröftug þar sem yfirborð og áferð er í aðalhlutverki. Í tilefni af HönnunarMars var opnuð sýning á nýjum verkum þeirra og gefst því tækifæri til að sjá hönnuðum úr ólíkum greinum teflt saman á spennandi hátt. Í verkum Helgu kemur fram kraftur þess hljóða og smáa. Minningar og íhugun bindast efni og formi svo úr verður mjög persónuleg túlkun í skartgripum hennar. Bjarni er hins vegar þekktur fyrir að ráðast gegn fyrirframgefnum reglum um notkun glerunga með stanslausum tilraunum á ólíkum samsetningum til að ná fram því óvænta. Með fatnaði sínum skapar Aníta óreiðukennda áferð ýmist með handbróderingu eða gefur efninu lausan tauminn og nýtir til þess áhrifaríkar litasamsetningar. Sjá nánar á www.honnunarsafn.is