Teikningar/skissur í leir og textíl

Kristín Garðarsdóttir, leirlistamaður og hönnuður hefur opnað sýninguna Teikningar/skissur í leir og textíl, í Sverrissal í Hafnarborg. Þar má sjá afrakstur vinnu Kristínar í European Ceramic Workcenter (EKWC) og TextielLab í Hollandi.

Kristín S. Garðarsdóttir, leirlistamaður og hönnuður, dvaldi í nokkra mánuði í Hollandi í hinu virta European Ceramic Workcenter (EKWC) og vann þar að þróun verka í keramik. Samtímis vann hún að vefnaði í TextielLab verkstæðinu í Textílsafninu í Tilburg. Í EKWC og TextielLab starfa sérfræðingar á sviði keramiks og textíls við bestu mögulegu aðstæður. Þau vinna náið með listamönnum, hönnuðum og arkítektum úr ólíkum áttum að þróun margvíslegra tilrauna og verkefna.

Öll vinna hefst með skissum og teikningum, sem síðan færast af blaði og yfir í önnur efni. Þetta ferli er áþreifanlegt í vinnu og verkum Kristínar. Skissur og teikningar sem voru unnar á áratugagamlan bókhaldspappír eru yfirfærðar í leir og textíl með ólíkum aðferðum, allt frá einföldum og frumstæðum yfir í hátæknilegar. Skissurnar og teikningarnar eru ofnar úr íslenskri ull í tölvustýrðum vefstól, handmótaðar og fléttaðar í leir, prentaðar í þrívídd og steyptar í postulín, pressaðar í leirpressu og brenndar í gasofni.

Afrakstur þessa ferlis eru hlutir sem endurspegla handverk, þekkingu og tækni, þar sem notagildið er stundum skýrt en oft óljóst. Útkoma vinnu Kristínar í EKWC og TextielLab verður sýnd í Sverrissal Hafnarborgar í tilefni af HönnunarMars.

Sýningarstjóri er Brynhildur Pálsdóttir.

Sjá nánar á vef Hafnarborgar

Vefur Kristínar Sigfríðar Garðarsdóttur: www.subba.is

Sýningin stendur til 26. maí 2019