SUND í Hönnunarsafni Íslands

Sýningin SUND í Hönnunarsafni Íslands 

01/02/22 - 25/09/22

Það eru engir viðskiptavinir í sundlaugum landsins, aðeins sundlaugagestir: almenningur á hverjum stað fyrir sig, fólk á öllum aldri með alls konar bakgrunn, alls konar holningu og alls konar sýn á lífið. Mikilvægustu almannagæðin á Íslandi eru fólgin í heita vatninu. Athyglisverðustu almannarýmin eru sundlaugarnar. Laugarnar eru vettvangur þar sem ókunnugir hittast og verða jafnvel málkunnugir, staðir þar sem samfélagið birtist sjálfu sér - á sundfötum.

Sundlaugamenningin snýst um lífsgæði og lýðheilsu, íþróttir, leik, afslöppun og skemmtun, líkamsmenningu, siðmenntun og samneyti. Í sundsamfélaginu svamla fjölbreyttir líkamar og í sturtuklefum almenningslaugarinnar er hversdagsleikinn allsber, óuppstilltur og ófilteraður. Daglegt líf hefur í gegnum tíðina sett mark sitt á sundlaugarnar og gert þær að líkamsræktarstöð, skólastofu, félagsheimili, leikvelli og heilsulind.

Mörg svið hönnunar koma við sögu í sundlaugamenningunni. Arkitektúr gegnir lykilhlutverki og þróun lauganna endurspeglar lifandi samtal arkitekta og samfélags. Grafísk hönnun, vöruhönnun, fatahönnun og upplifunarhönnun koma saman í sundinu. Sundlaugarnar eru samfélagshönnun: þær hafa mótað samfélag, menningu og líkama fólksins í landinu í meira en öld. Samfélagshönnun snýst um að skapa vellíðan og bæta daglegt líf fólks, ekki að skapa söluvöru.

Sýningin nær yfir tímabilið frá sundvakningunni við upphaf 20. aldar til dagsins í dag. Sagan sem hún segir af sundlaugamenningu er um leið ylvolg sagan af íslensku nútímasamfélagi með léttri angan af klór og hveralykt, gufuslæðu og skvampi.

Sýningarstjórar: Valdimar T. Hafstein, þjóðfræðingur og Brynhildur Pálsdóttir, hönnuður.

Grafísk hönnun: Ármann Agnarsson og Helgi Páll.

Sýningin er unnin í samstarfi við Háskóla Íslands. Hún byggir á rannsóknarsamstarfi þeirra Arnar D. Jónssonar, Ólafs Rastrick og Valdimars Tr. Hafstein sem og rannsóknum þjóðfræðinganna Katrínar D. Guðmundsdóttur, Katrínar Snorradóttur, Ólafs Ingibergssonar og Sigurlaugar Dagsdóttur.