Stockholm Craft Week í október

Stockholm Craft Week er fjögurra daga löng hátíð tileinkuð listhandverki í Stokkhólmi og nágrenni og stendur frá 4. til 8. október 2023. Fyrsta daginn þann 4. október verður haldin eins dags alþjóðleg ráðstefna Curating Craft í Stokkhólmi. Þar verður áhersla lögð á sýningarstjórn og koma fyrirlesarar og pallborðsfulltrúar frá Norðurlöndunum og Bandaríkjunum og er fatahönnuðurinn Ragna Fróða meðal þeirra sem taka til máls.

Fjölmargir viðburðir, málstofur og sýningar munu fara fram þessa daga. Einkagallerí, opinber gallerí, söfn og vinnustofur munu opna dyr sínar til að varpa ljósi á þessa margþættu listgrein en í Svíþjóð er mjög rík handverkshefð. Á Stockholm Craft Week gefst fólki frábært tækifæri til að kynnast sænsku samtíma listhandverki.

Eins dags alþjóðleg ráðstefna 4. október 2023
Þann 4. október verður haldin eins dags alþjóðleg ráðstefna Curating Craft í Stokkhólmi. Þar verður áhersla lögð á sýningarstjórn og koma fyrirlesarar og pallborðsfulltrúar frá Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. 
Til máls taka: Damon Crain (BNA), Ragna Fróðadóttir (IS), Daniela Ramos Arias (NO), Bettina Køppe (DK) og Marcia Harvey Isaksson (SE). Fundarstjóri: Evelina Hedin (SE). Ráðstefnan fer fram í Kulturhuset Stadsteatern, Stokkhólmi.
Í kjölfar ráðstefnunnar mun menntamálaráðherra, Parisa Liljestrand setja Stockholm Craft Week 
Ráðstefnan Curating Craft er haldin að frumkvæði NNCA, Nordic Network of Crafts Associations og The Swedish Crafts Centre, með stuðningi frá Norræna menningarsjóðnum og IASPIS. 

Hér er hægt að kynna sér ráðstefnuna betur og fjölbreytta dagskrá Stockholm Craft Week.