Skömmin er svo lík mér

Skömmin er svo lík mér myndlistarsýning með verkum Ingibjargar Huldar Halldórsdóttur hefur verið opnuð í Gerðubergi. Sýningin inniheldur stór olíuverk, minni krosssaumsverk, silkiþrykksmyndir og teikningar.

Viðfangsefni sýningarinnar er skuggahlið persónuleikans, faldar tilfinningar, skömm og tabú. Hér er hægt að horfast í augu við óþægilegar tilfinningar sem við reynum að halda niðri í daglegu lífi. Sýningin er margslungin og tekst á við viðfangsefnið á marga vegu, en öll eiga verkin það sameiginlegt að hafa grímuna sem viðfangsefni. Gríman skýlir persónuleikanum, er margbreytileg og sýnir líðan þess er hana ber.

Skörp form, óhefðbundnar litasamsetningar og nákvæmt handverk fanga athygli áhorfandans og velta upp ótal spurningum um mig og þig - og skuggana okkar.

Myndlistamaðurinn Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarfirði. Hún lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn og Lyon, Fraklandi og hefur unnið sem arkitekt og hönnuður samhliða listsköpun. Hún hefur tekið þátt í bæði einka- og samsýningum ytra. Þetta er fyrsta einkasýning Ingibjargar hér á landi. 

Sýningin fékk verkefnastyrk Myndstefs í ár. 

Sýningin stendur til 9. janúar, og er opin alla virka daga frá kl. 9 - 18 og um helgar frá kl. 13 - 16.