SKATA 60 ára - sýning

SKATA 1959

Sýningarlok 1. apríl 2019

Fyrstu Skötustólarnir litu dagsins ljós árið 1959 er hönnunin því 60 ára á árinu. Að þessu tilefni eru framleidd tölusett viðhafnareintök í takmörkuðu upplagi. Hægt er að velja á milli nýjustu gerðanna úr olíu- og vaxborinni eik í tveimur litum með dökkgráum löppum, eða eftirmynda af elstu stólunum með nikkelhúðuðum löppum og ólitaðri eik, handlakkaðri eða olíuborinni. 

Stólana má sjá á nýrri sýningu hjá HANDVERKI OG HÖNNUN Eiðistorgi. Opið virka daga milli kl. 9 og 16 en stólarnir njóta sín einnig vel í gluggunum þegar lokað er. Þarna eru bæði afmælisútgáfurnar af Skötunni og nokkrar útgáfur af Hamrinum og eru stólarnir á sérstökum afmælisafslætti meðan á sýningunni stendur.

www.skata.is og SKATA á facebook

skata 1959Stóllinn Skata er ekki einungis fyrsti fjöldaframleiddi stóllinn á Íslandi úr formbeygðum krossvið, heldur einnig elsti íslenski stóllinn, sem enn er í framleiðslu.

Þó hönnun stólsins hafi sterkar alþjóðlegar rætur, m.a. í „Maurinn“ eftir Arne Jacobsen, þá er Skatan rammíslenskur stóll með sterka skírskotun í náttúruna, sem m.a. má sjá í formi baksins og ekki síst í gúmmífestingunum, sem vísa í 4 egg skötufisksins.

Framleiðsla Skötunnar hófst 1959 og stóð til ársins 1973 og náði hann mikilli útbreiðslu. Framleiðsla hófst svo að nýju árið 2007, og er hann nú fáanlegur í eik, tekki og svörtu, auk þess sem hægt er að sérpanta aðrar viðartegundir og liti.

Hönnuðurinn: Halldór Hjálmarsson (1927-2010) Húsgagna- og innanhússarkitekt

Halldór nam innanhúss- og húsgagnahönnun í Kaupmannahöfn á árunum 1953-1956 og naut þar m.a. dyggrar handleiðslu Paul Kjærholm.

Að námi loknu starfaði Halldór m.a. hjá Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt og síðan hjá Húsameistara Reykjavíkur, þar sem hann kom að hönnun húsgagna og innréttinga flestra þeirra bygginga sem reistar voru á vegum Reykjavíkurborgar á þeim tíma. Halldór rak síðan um árabil trésmiðju föður síns Hjálmars Þorsteinssonar á Klapparstíg 28.

Þekktust eigin verka Halldórs eru e.t.v  kaffihúsið Mokka, sem enn er að mestu óbreytt að rúmlega fimmtíu árum liðnum.

Einnig liggja eftir hann frumgerðir og teikningar fjölda annarra húsgagna, sem vonandi komast aftur í framleiðslu.