Sjö listamenn - sýning í Gallerí Gróttu

Á samsýningunni sjö listamenn sýna listamenn verk sem tengjast á einn eða annan hátt sjálfstæði, hvort heldur sem er hugtakinu sjálfu, sjálfstæði einstaklingsins eða sjálfstæði þjóðar. Listamennirnir sjö nálgast viðfangsefnið á ólíkan hátt og er bæði um að ræða verk sem unnin hafa verið sérstaklega fyrir sýninguna sem og eldri verk. Listamennirnir koma allstaðar að af landinu en eiga það allir sameiginlegt að hafa verið valdir listamenn hátíðarinnar List án landamæra. 

Ísak Óli Sævarsson var valin listamaður hátíðarinnar árið 2012. Hann er í stöðugri þróun sem listamaður og listin þroskar hann sem einstakling. Ísak er afkastamikill listamaður og eru fjölmörg verka eftir hann í einkaeigu sem og í eigu hins opinbera um land allt. Ísak Óli vinnur helst með málverk og teikningar og er endurtekning áberandi stef í verkum hans.

Atli Viðar Engilbertsson var valin listamaður hátíðarinnar árið 2013. Atli Viðar býr og starfar á Akureyri. Hann er fjölhæfur listamaður sem vinnur þvert á miðla. Hann er myndlistamaður, tónlistamaður og rithöfundur með einstakan stíl. Atli Viðar hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og einkasýninga hérlendis og eru mörg verk eftir hann í einkaeigu. 

Sigrún Huld Hrafnsdóttir var valin listamaður hátíðarinnar árið 2014. Sigrún Huld vinnur að mestu með málverk og teikningar sem hún vinnur af mikilli natni. Sterk þemu má greina í verkum Sigrúnar þar sem hún tekur fyrir ákveðin viðfangsefni um langt skeið, svo sem fugla, fiska eða hús. Listaferill Sigrúnar spannar áratugi og hefur hún tekið þátt í fjölda einkasýninga og samsýninga, m.a. í Listasafni ASÍ, á Kjarvalsstöðum og Týsgallerý

Karl Guðmundsson var valinn listamaður hátíðarinnar árið 2015. Karl býr og starfar á Akureyri. Verk hans eru málverk þar sem litir og form spila saman. Karl vinnur verk sín oft í samstarfi við listakonuna Rósu Kristínu Júlíusdóttur. Samstarf þeirra hófst sem samspil nemanda og kennara en þróaðist markvisst yfir í samvinnu tveggja vina, félaga í listinni. Þau hafa haldið margar sameiginlegar listsýningar undanfarin ár.

Erla Björk Sigmundsdóttir var valinn listamaður hátíðarinnar árið 2016. Erla Björk vinnur útsaumsverk. Verk Erlu endurspegla kraftinn sem í henni býr, hún tjáir sig í ólíkum formum og listsköpun hennar býr yfir sterkum persónulegum stíl. Verk hennar eru ýmist fígúratíf eða óhlutbundin formgerð, en ætíð einlæg, kraftmikil, tjáningarík og fögur.

GÍA - Gígja Guðfinna Thoroddsen var valinn listamaður hátíðarinnar árið 2017. Verk Gíu hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið. Mörg verka hennar byggja á hennar eigin reynslu að vera kona og þess að vera notandi geðheilbrigðiskerfisins. Hún gerir málverk og teikningar með fjölbreyttu myndefni, m.a. af þekktu fólki úr samtímanum og mannkynssögunni. GÍA hefur haldið fjölda einkasýninga, bæði hérlendis og erlendis.

Aron Kale er listamaður hátíðarinnar árið 2018. Hann býr og starfar á Egilsstöðum þar sem hann hefur verið virkur þátttakandi í listalífinu. Hann vinnur málverk og blýantsteikningar. Manneskjan og tilveran eru honum oft hugleikin í verkum sínum og notar hann myndlistina sem nokkurskonar úrvinnslu á hversdeginum. 

List án landamæra er listahátíð með áherslu á fjölbreytileika mannlífsins. Hátíðin var fyrst haldin árið 2003, fer fram allt árið um land allt og hefur vaxið og dafnað með hverju ári.
Markmið hátíðarinnar er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í
menningarlífinu. Verkefni hátíðarinnar hafa verið af öllum toga og má m.a. nefna sýningar á helstu listasöfnum landsins, tónleika á Airwaves, kvikmyndir á kvikmyndahátíðinni RIFF og viðburði á HönnunarMars. 

Sýningin Sjö listamenn er styrkt af Fullveldishátíðinni og er hluti af dagskrá 100 ára Fullveldisafmælis Íslands.