RÍKI – flóra, fána, fabúla

Sýningin RÍKI - flóra, fána, fabúla veitir áhorfendum innsýn í listsköpun ólíkra listamanna með verkum frá síðustu árum og áratugum, glænýjum verkum sem og öðrum eldri úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Boðið verður upp á viðamikla dagskrá samhliða sýningunni.

 

Hvernig leitar samtímalist fanga í ríki náttúrunnar? Listasagan endurspeglar frá upphafi vega áhuga manneskjunnar á lífríki jarðar en í seinni tíð hefur orðið umbylting á viðhorfi manna þar á. Vísindalegar uppgötvanir hafa kollvarpað gamalgrónum hugmyndum með aukinni innsýn í smæstu einingar lífsins sem og yfirsýn yfir samspil flókinna vistkerfa. Hin ríkjandi hugmynd um manneskjuna sem drottnandi veru en annað líf sem óæðra og af öðrum toga hefur vikið fyrir vitneskjunni um að allt lífríki byggist á sama grunni. Samt sem áður virðist það fjarri manninum að láta af tilburðum til þess að ráðskast með lífið og temja í sína þjónustu. Aukin þekking hefur stöðugt vakið nýjar spurningar og ennfremur skilið eftir svigrúm fyrir óvissu, trú og von (eða ótta) um nýjar uppgötvanir handan við hornið.

Viðhorf samtímalistamanna til náttúrunnar vega salt milli þess að vilja skoða hana á hlutlægan hátt eða nota hana sem spegil á eigið sjálf og samfélag. Hvort tveggja býður upp á frjóar og snjallar túlkanir sem ýta undir skapandi hugsun og vekja jafnframt spurningar um stöðu mannsins gagnvart umhverfi sínu. Rétt eins og náttúrunni hefur verið skipað í flokkunarkerfi má greina flokkadrætti í mismunandi aðferðum ólíkra listamanna. Sem dæmi má nefna rannsóknarmiðaða aðferð, allegóríska, fagurfræðilega og jafnvel súrrealíska. Þverfagleg hugsun hefur opnað fyrir nýstárlega nálgun þar sem samkrull myndlistar við raunvísindi, heimspeki, vísindaskáldskap og sögu skipar veigamikinn sess.