RÉVÉLATIONS í PARÍS

Nú hefur sýningin Révélations - Fine Craft and Creation Fair sem haldin er í Grand Palais í París verið opnuð. Þetta er stór viðburður þar sem listhandverk í alþjóðlegu samhengi er í aðalhlutverki. Flestir þátttakendur eru Frakkar en einnig eru 14 önnur lönd sem taka þátt í viðburðinum. Heildarfjöldi þátttakenda er yfir 340.


Í ár var Íslendingum ásamt hinum norðurlöndunum boðið að setja upp sýningu í Grand Palais þessa daga sem Revelations - Fine Craft og Creation Fair stendur yfir og einnig að taka þátt í svokölluðu „Banquet“ þar sem sýnd eru verk frá 15 þjóðlöndum. HANDVERK OG HÖNNUN er hluti norrænna samtaka sem kallast Nordic Network of Crafts Associations (NNCA) og hafa staðið að undirbúningi þessarar sýningar.

magic language///game of whispers

Á sýningunni eru verk frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi.
Sýningarstjóri er hin norska Marianne Zamecznik. Hún kom með skemmtilega hugmynd að sýningu sem byggðist á því að hvert land skipaði staðbundinn aðstoðarsýningarstjóra. Ferlið við valið var hugsað sem einskonar hvíslleikur. Fyrst var eitt verk valið, það verk sent einum þessara aðstoðarsýningastjóra sem þá valdi verk í sínu landi sem kallast á við verkið sem hann fékk sent. Það verk er síðan sent áfram til næsta lands þar sem valið var nýtt verk og þannig koll af kolli, þar til búið var að fara fimm hringi og velja samtals 25 verk.
HANDVERK OG HÖNNUN fól Önnu Leoniak að vera aðstoðarsýningarstjóri fyrir hönd Íslands. Hún hefur nú valið fimm verk sem verða á magic language///game of whispers. Þeir Íslendingar sem eiga verk á sýningunni eru OrriFinn, Helga Ósk Einarsdóttir, Hlutagerðin (Elín Bríta, Hjörtur Matthías Skúlason, Hrönn Snæbjörnsdóttir), Studio Hanna Whitehead og Þórunn Árnadóttir.
Sjá nánar: www.magiclanguage.no/objects

Le Banquet
Einnig var Íslendingum boðið að tilnefna verk á svokallað „Banquet“ en það er sérstök sýning á verkum frá öllum þeim 15 þjóðlöndum sem taka þátt í Revelations - Fine Craft og Creation Fair. Valin hafa verið framúrskarandi verk sem eiga að varpa ljósi á samtíma listhandverk í þessum löndum. Tvö verk hafa verið valin frá Íslandi fyrir þessa sýningu en þau eiga STAKA (María Kristín Jónsdóttir) og MÓT (Baldur Helgi Snorrason, Guðrún Harðardóttir og Katla Maríudóttir).
Sjá nánar: www.magiclanguage.no/banquet-selection

Révélations - var fyrst haldið fyrir tveimur árum en þá voru það 267 aðilar sem sýndu og kynntu listhandverk sitt í Grand Palais fyrir rúmlega 33.000 gestum. Stefnt er að því að halda þennan viðburð annað hvert ár. Suður Kórea er sérstakur heiðursgestur að þessu sinni og munu 22 listamenn þaðan sýna og kynna verk sín en heildarfjöldi þátttakenda er rúmlega 340.

NNCA er skipað Danske Kunsthåndværkere(DK), Konsthantverkscentrum(SE), HANDVERK OG HÖNNUN(IS), ORNAMO(FI) og Norwegian Crafts(NO). Þessi samtök vinna mikilvægt starf í að styrkja stöðu og kynna norrænt listhandverk heima og heiman og er þátttaka í þessari sýningu í París liður í því starfi.
Verkefnið The Nordic Craft Pavilion er styrkt af Norrænu menningargáttinni og Norræna menningarsjóðnum og er NNCA í samstarfi við norrænu sendiráðin og norrænar stofnanir í París. Þátttaka HANDVERKS OG HÖNNUNAR í þessu verkefni er styrkt af Mennta-og menningarmálaráðuneytinu og Icelandair.