Refilsaumuð saga landnema

Einstök sýning á yfir 300 refilsaumuðum veggmyndum hefur verið opnuð í Tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit.

SCOTTISH DIASPORA TAPESTRY segir sögu Skota sem hafa flust til annarra landa í gegnum aldirnar og afrekum þeirra. Veggmyndirnar eru saumaðar af afkomendum skoskra innflytjenda í 34 löndum og hefur sýningin verið á ferð á milli þeirra sl. tvö ár. Við hana munu nú bætast fimm myndir frá Íslandi sem segja sögu systranna Þórunnar hyrnu og Auðar djúpúðgu Ketilsdætra sem komu hingað til lands með fjölskyldur sínar frá Skotlandi á níundu öld. 

Sýningin stendur yfir alla daga til 26. febrúar frá kl. 14:00 til 18:00. 

Íslenska verkefninu er stýrt af Bryndísi Símonardóttur fjölskylduþerapista og handverkskonu í Eyjafjarðarsveit. Bryndís teiknaði altarisdúk fyrir Hóladómkirkju og óf, teiknaði og saumaði altarisdúk í Saurbæjarkirkju. 

Myndirnar fimm eru teiknaðar af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur teiknara og rithöfundi sem hannaði og teiknaði Njálurefilinn, hannaði og stjórnaði teiknivinnu við Vatnsdælu á refli og leiddi refilverkefni um Darraðarljóð í Caithness á Skotlandi. Sögulegur ráðgjafi við hönnun myndanna er Vilborg Davíðsdóttir þjóðfræðingur og rithöfundur sem skrifað hefur um líf landnámskonunnar Auðar djúpúðgu í tveimur skáldsögum, Auði og Vígroða, og vinnur nú að þeirri þriðju sem kemur út í haust. 

Gestir á sýningunni í Laugarborg geta fengið að sjá hvernig saumaskapurinn fer fram. Allar veggmyndir Scottish Diaspora Tapestry eru saumaðar af fjölda fólks í hinum ýmsu löndum og munu fimm konur í Eyjafirði sauma landnámskvennamyndirnar. 

Að verki loknu bætast myndirnar af Þórunni hyrnu og Auði djúpúðgu við heildarsýninguna sem mun hafa fast aðsetur í sérsmíðuðu sýningarhúsnæði í bænum Prestonpans í Skotlandi en þar var háð söguleg orrusta í uppreisn Jakobíta gegn ensku konungsvaldi árið 1745.

Heimasíða Scottish Diaspora Tapestry er http://www.scottishdiasporatapestry.org/

Viðburður á Facebook