Opið hús á Sumardaginn fyrsta

Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl, verður opið hús í Myndlistaskólanum í Reykjavík frá kl. 13:00-17:00. Á opnu húsi verða sýnd verk eftir nær 600 nemendur á aldrinum 4-87 ára sem sækja almenn námskeið á framhaldsskólastigi og námskeið í barna- og unglingadeild. 

Kl. 13.00-14.30 verður boðið upp á opnu listasmiðjuna Kristallar, fyrir börn og fylgdarmenn þeirra. Í smiðjunni rækta þátttakendur sinn eigin kristal í krukku undir handleiðslu Ragnheiðar Gestsdóttur, myndlistarmanns og kennara við skólann. Þátttaka er ókeypis en þátttakendur eru beðnir um að koma með glerkrukkur að heiman ef þeir hafa tök á. 

Kl. 15.00-16.30 verður boðið upp á listasmiðjuna Mín eigin hvelfing fyrir 9-13 ára börn. Í smiðjunni byggir hver sína eigin hvelfingu og setur viðbætur á hana eftir því sem þurfa þykir. Skoðað verður m.a. hvernig þríhyrningar, fimmhyrningar og sexhyrningar mynda sterk form sem er hringlaga hvelfing. Ýmis efni verða notuð við bygginguna. Umsjón með smiðjunni hefur Guðný Rúnarsdóttir, myndlistarmaður og kennari við skólann. Þátttaka er ókeypis en fjöldi þátttakenda er takmarkaður og þarf að því að skrá sig með því að senda póst á barnadeild@mir.is.

Nemendur og deildarstjórar sjónlistadeildar (fornám - eins árs námsbraut og listnámsbraut - nám til stúdentsprófs) og diplómadeilda (teikning, textíll, málun, mótun og myndlist fyrir nemendur með þroskahömlun) verða á staðnum til skrafs og ráðagerða fyrir þá sem vilja kynna sér betur starfsemi deildanna.

Kaffi, djús og vöfflur á boðstólum, verið hjartanlega velkomin!

Sjá viðburð á Facebook.