Opið fyrir umsóknir í keramik - diplómanám

Opið fyrir umsóknir í keramik - diplómanám í Myndlistaskólanum í Reykjavík

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í diplómanám í keramik fyrir skólaárið 2017-18. Umsóknarfrestur er til kl.17:00 mánudaginn 29. maí. Nám í keramik er tveggja ára námsbraut við Myndlistaskólann í Reykjavík, leið til BA gráðu við evrópska samstarfsskóla (sé þriðja árið tekið við samstarfsskóla). Unnið er með leir og önnur efni, tengd honum. Nemendur öðlast breiðan grunn þar sem áhersla er lögð á að hugsa út frá möguleikum ákveðinna efna og aðferða, og nýta þá á fjölbreyttan hátt. Nemendum gefst tækifæri til að kynnast hagnýtum möguleikum leirsins við framleiðslu einstakra gripa ásamt fjöldaframleiðslu, sem og til annarra skapandi verka. Áhersla er lögð á þá sérstöðu sem felst í menningu og náttúru landsins og er hluti námsins tilraunastofa um íslensk jarðefni og skapandi hugmyndir um nýtingu þeirra.