ÖÐRUVÍSI ÓLGUR

ÖÐRUVÍSI ÓLGUR

Sigrún Einarsdóttir glerlistamaður 

sýnir hjá HANDVERKI OG HÖNNUN, Eiðistorgi

Síðasta sýningardaginn, fimmtudaginn 20. júní mun Sigrún taka á móti gestum kl. 15-17.

Ólgur eru lífræn form úr gleri sem dansa á mörkum nytja- og skúlptúrs. Í þeim virðir  listamaðurinn vilja glersins og leyfir eiginleika þess njóta sín til fulls. Í þessum nýjustu eintökum er reynt á þolmörk forms og lita/skreytinga. 

Sigrún Einarsdóttir glerlistamaður stofnaði glervinnustofuna Gler í Bergvík á Kjalarnesi með Sören Larsen árið 1982, en síðan 2003 hefur hún rekið það ein.

Sigrún hefur unnið jöfnum höndum að myndlist og listiðnaði. Hún kemur víða við í myndsköpun sinni, glæðir muni sína fjörugum frásögnum eða lætur þá vega salt milli nytjalistar og skúlptura. Sigrún hefur unnið veggverk, rýmisverk og skúlptúra, og notar afar fjölbreytta tækni.

Sigrún hefur tekið þátt í fjölmörgum list-og hönnunarsýningum víða um heim, auk þess að hafa haldið nokkrar einkasýningar og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. M.a. hefur birst grein um verk hennar í hinu þekkta glertímariti New Glass og hún (í samvinnu við Ólöfu Einarsdóttur) hefur þrisvar fengið birta mynd af verki í hinu eftirsótta tímariti New Glass Review, sem er í eigu Corning Museum of Glass. 

Ólgurnar

“Hér kemur fram áralöng reynsla Sigrúnar af vinnu með glerið, kunnátta og þekking á eiginleikum þess og breytilegu eðli við mismundi hitastig. Hér er engu líkara en undirmeðvitund listakonunnar tengist eðli glersins og skapi lifandi verur, einstaka hverja um sig, þar sem mýkt og sveigjanleiki fá að njóta sín í flæðandi nákvæmni undir fullkominni stjórn listakonunnar. Hvert verk er einstakt, lífræn formin minna á furðudýr á sjávarbotni, lífrænar himnur eða opin blóm, viðkvæm og sterk í senn.” 

Ragna Sigurðardóttir

Sýningin stendur til 20. júní 2019.

Sýningin á Facebook

www.gleribergvik.is

Gler í Bergvík á Facebook