NÁTTÚRA LANDNÁM HREYFING

Jón Guðmundsson hefur opnað nýja sýningu Náttúra Landnám Hreyfing hjá HANDVERKI OG HÖNNUN, Eiðistorgi. Þar sýnir hann þrjár mismunandi línur af renndum skálum og ílátum.

Náttúra: Fallegir viðarbútar eru nýttir í þessa hönnunarlínu. Hér er fegurð viðarins aðalatriðið og hún látin koma fram í hlutnum. Ýtt er  undir einkennin með því að nota olíur sem flæða vel og laða fram viðaræðar og viðarsveppi. Sérhver skál er einstök.

Landnám : Sótt er í þau form, liti og mynstur  sem landnámsmenn studdust við. Harður viður er nýttur í skálar, keröld  og bikara. Litir svo sem mýrarauði, málm-  og plöntulitir eru notaðir til að ýkja einkenni. Mynstur er oft hamrað í viðinn. Hægt er að gera marga hluti sem eru svipaðir.

Hreyfing: Mynstur er myndað með því að líma saman búta af mismunandi viðartegundum. Hægt er að gera marga hluti sem eru líkir.

Jón Guðmundsson er plöntulífeðlisfræðingur en hefur  haft áhuga á að smíða ýmsa hluti úr spýtum, frá unga aldri. Fyrir um tveimur áratugum ákvað Jón að smíða eingöngu úr lauftrjám, ræktuðum hér á landi. „Þeirri ákvörðum hefur því fylgt að ég hef með tímanum kynnst vel eiginleikum þeirra trjátegunda og hvernig þær nýtast sem hráefni til smíða. Sumar tegundir henta í húsgögn, aðrar í rennsli eða útskurð.“  

Vinnulag Jóns er þannig að hann sækir trjástofna þar sem verið er að grisja, einkum á höfuðborgarsvæðinu eða í eigin ræktun. „Stofnana hluta ég í sundur og flokka viðinn sem svo fer á viðarlagerinn. Við að vinna með viðinn á þennan hátt og leita að fegurstu bútunum kvikna hugmyndir um hvernig nýta má hann sem best. Hefðbundið trérennsli er þó aðalvinnuaðferðin.  Margar tegundir ræktaðar hér á landi bera af í viðarfegurð. „Þar má nefna gullregn, reynivið, selju, blæösp, gráelri og birki og þessar tegundir nýti ég mest“.

Jón  er formaður  í  Félagi Trérennismiða á Íslandi en það félag hefur haldið nokkrar sýningar og Jón  hefur verið með á þeim öllum. 

Sýningin mun standa til og með 12. maí 2019.

Opið er virka daga kl. 9.00 - 16.00 en sýningin nýtur sín einnig vel sem gluggasýning.

Verið velkomin!

Hér er hægt að skoða Facebook síðu Jóns - Gallerý Tré