MORRA í Hönnunarsafni Íslands

Fatahönnuðurinn Signý Þórhallsdóttir hefur komið sér fyrir með vinnuaðstöðu í safnbúð Hönnunarsafns Íslands, hún mun vera þar í sumar og halda áfram að þróa vörulínu sína MORRA. 

Í dag samanstendur MORRA af silkislæðum og veggmyndum á pappír þar sem íslenska flóran er í aðalhlutverki, og nú munu nýjar vörur bætast við í sumar.

Í aldaraðir hefur flóran reynst myndlistarmönnum og hönnuðum óendaleg uppspretta. Við hjá Hönnunarsafni Íslands stóðum í þeirri trú að nafnið Morra væri tilvísun í Morris (William Morris). Það var víst ekki hugmyndin heldur sprettur nafnið frá sögninni að marra. Það er samt ekki ólíklegt að um sé að ræða ómeðvitaða tilvísun í Morris sem frægur er fyrir blómamynstur sín. Hann ferðaðist um Ísland árin 1871 og 1873 og kallaði landið „rómantískustu eyðimörk í heimi“. Íslenska flóran hefur lítið breyst frá því þá, þó svo að landslagið í framleiðslu og hönnunarferlið hafi gjörbreyst með nýrri prent- og tölvutækni.

Signý útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í fatahönnun árið 2011. Eftir ústskrift sótti hún sér reynslu bæði í New York og London hjá hönnuðum eins og Zöndru Rhodes og Vivienne Westwood, þar sem hún starfaði í þrjú ár við að hanna fatnað og munstur fyrir Japansmarkað. Signý leitast við að starfa á mörkum fata- og prenthönnunar.

MORRA er merki stofnað af Signýju Þórhallsdóttur árið 2018. Merkið leggur áherslu á vandaða fylgihluti og kvenfatnað sem sækir innblástur í nærumhverfi og menningu með lífsgleði að leiðarljósi.

Nánari upplýsingar um MORRU má finna á morra.is og  á vef Hönnunarsafns Íslands.