Lokahóf - Marþræðir og Stakkaskipti

Síðasta degi sumaropnunar á Byggðasafni Árnesinga verður fagnað með laufléttri dagskrá í Húsinu á sunnudaginn 30. september.

Þar munu listamenn bjóða gesti velkomna, vinnusmiðja verður fyrir krakka, sögufróðleikur fyrir gesti og ljúfir tónar fylla loftið. Sérsýningar sumarsins í Húsinu eru tvær; Marþræðir í borðstofunni og Stakkaskipti í fjárhúsinu og þeim lýkur í lok mánaðar. Sýningin Marþræðir er fullveldisárið með augum listamannsins Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur þar sem hún beinir sjónum sínum að fjörunni og fjörunytjum. Ásta notar hráefni eins og sjávargróður ásamt ullinni til að vísa í bjargræði fólks þegar illa áraði. Marþræðir er samspil textílverka hennar við vel valda gripi úr safneign og veitir frumlega sýn á söguna.

Í fjárhúsinu sýna fjórar ólíkar listakonur verk sín. Þetta eru þær, Halla Ásgeirsdóttir keramiker, Halla Bogadóttir gullsmiður, Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður. Hugmyndin að sýningunni fæddist fyrir nokkrum árum og röð tilviljana leiddi þær á slóðir Eyrarbakka. Þær heilluðust af þeirri hugmynd að umbreyta grófu umhverfi eins og gamla fjárhúsinu í sýningarsal og þannig er nafnið Stakkaskipti tilkomið því sannarlega umbreyttu þær fjárhúsinu, sjón er sögu ríkari.  Listamenn taka vel á móti gestum yfir daginn frá kl. 14.00

Magnús Karel Hannesson flytur stutt erindi kl. 15.00 með sögubútum sem tengjast fjörunytjum og yfir daginn leikur Örlygur Benediktsson ljúfa tóna á gamla píanóið. Vinnusmiðja verður fyrir krakka þar sem við finnum efni í fjörunni og sköpum hafkarl og kerlingu sem munu hanga inni á hluta af Marþræða sýningunni hennar Ástu. 

Dagskrá:

Kl. 11.00 Vinnusmiðjan Marþræðir 
Við búum til listaverk úr fjörudóti með Ástu Guðmundsdóttur. Við hittumst fyrst við bryggjuna á Eyrarbakka og söfnum efni úr fjörunni. Komum svo í hjallinn bak við Húsið og búum til okkar eigin hafkarl og kerlingu sem verða til sýnis. Heppilegt fyrir krakka og fullorðna á öllum aldri, mætið í skítagallanum ykkar! 

Kl. 14.00 – 18.00 Síðasti sýningardagur
Marþræðir sumarsýning: Ásta Guðmundsdóttir sýningarhöfundur spjallar við gesti og gangandi. 
Stakkaskipti í fjárhúsinu: Listakonurnar Halla Ásgeirsdóttir keramiker, Halla Bogadóttir gullsmiður, Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður og Margrét Birgisdóttir myndlistamaður taka vel á móti gestum.


Kaffi og konfekt
Píanótónar
Við og við yfir daginn leikur Örlygur Benediktsson ljúfa tóna á gamla píanó Hússins.

Kl. 15.00 Örlítið um þangið og sölin
Magnús Karel Hannesson rifjar upp sögubúta sem tengjast fjörunytjum.

Frítt er í safnið allan daginn sem er opið kl. 11-18 – verið velkomin!

Nánar um lokahófið hér