Leyndir skuggar

Halla Armanns sýnir einstaka íslenska prjónahönnun þar sem flókið vélprjón og einstakt handverk mætast með það að markmiði að efla, þróa og nútímavæða prjónahandverk, samhliða því að styrkja íslenskar prjónahefðir. 

Halla Armanns, prjónahönnuður, hefur prjónað fyrir sjálfa sig og aðra frá því að hún man eftir sér. Það má segja að prjónið sé henni í blóð borið enda segist hún hafa fengið prjónið í vöggugjöf frá móður sinni. Það var því eðlilegt skref fyrir hana að gera prjónið að framtíðarstarfi. Hún lagði stund á tísku textíl-prjónahönnun við London College of Fashion og útskrifaðist með láði árið 2021.

Í þessari sýningu kannar Halla möguleika prjóns og hvernig það getur teygt sig út fyrir rammann á óhefðbundinn hátt með því að samtvinna vél og hönd. Hún útfærir hefðbundnar handverksaðferðir – prjón, hekl og útsaum og vinnur það lengra til þess að skapa einstakar (sérprjónaðar) flíkur og verk með tækni sem hún hefur þróað síðastliðin tvö ár. Á sýningunni er þróunarferlið kynnt ásamt prufum, teikningum og lokaverkum.

Halla finnur innblástur í persónulegum upplifunum, menningararfi og íslenskri náttúru sem hún nýtir til þess að miðla sem eins konar sögumaður. Vinnan hennar snýst um að þróa hefðbundna prjónatækni til þess að skapa nýstárlega og einstaklingsbundna (sérprjónaða) vöru.

Halla skoðar tenginguna á milli manns og náttúru, samspil hrörnunar og vaxtar. Hún er knúin áfram að sýn um sjálfbæra framtíð sem varðveitir þekkingu á handverkshefðum fyrri tíma.
Sjálfbærni spilar stórt hlutverk í hönnunarferlinu, hvort sem það er að ræða umhverfisvæna tækni eða efnivið. Halla vinnur allar vörurnar sínar sjálf með náttúrulegum gæða efnum og afgangsgarni. Þannig lágmarkar hún kolefnisfótspor vörunnar. Hún trúir á að hanna einstaklingsbundnar (sérprjónaðar) vörur og hvetja einstaklinga til þess að finna nýjar leiðir til þess að byggja þýðingarmeiri tengingu við textíl og stuðla gegn óhóflegri neyslu og skynditísku (e. fast fashion).

Sýningin er haldin í Fótógrafí á Skólavörðustig og er opin sem hér segir:
Miðvikudagur: 16:00-20:00
Fimmtudagur: 16:00-21:00
Föstudagur: 12:00-21:00
Laugadagur: 12:00-17:00
Sunnudagur: 13:00-17:00
Nánari upplýsingar um sýninguna