Letur og list í Gallerí Gróttu

Þorvaldur Jónasson, Guðlaug Friðriksdóttir og Ragnar G. Einarsson hafa opnað sýninguna Letur og list í Gallerí Gróttu.

Á sýningunni í Gallerí Gróttu ætlar Þorvaldur Jónasson skrautritari og myndskreytir ásamt bókbandsmeisturunum Ragnari G. Einarssyni og Guðlaugu Friðriksdóttur að sýna Letursöguna og hvernig hún hefur þróast allt frá kristsburði ásamt einstöku listbókbandi.

Þorvaldur Jónasson
Þorvaldur er fæddur í Ólafsvík 1942. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands (KÍ) 1964 og hóf störf sem myndmennta- og skriftarkennari við Réttarholtsskóla. Þar starfaði hann til ársins 2008, að undanskildu skólaárinu 1976-77 en þá stundaði hann nám í Osló. Þorvaldur var stundakennari við KÍ (síðar KHÍ) til fjölda ára og leiðbeindi nemendum í skriftarkennslu. Að auki hefur hann sinnt fullorðinsfræðslu til margra ára m.a. á vegum Námsflokka Hafnarfjarðar, Tómstundaskólans og Mímis í Reykjavík. Þorvaldur hefur starfar við skrautritun og myndskreytingar fyrir ýmsa opinbera aðila og tekið þátt í nokkrum samsýningum. Árið 2009 hlaut hann Íslensku menntaverðlaunin. Verk Þorvaldar eru unnin er hann var við nám í skriftgrafík í Osló. Þau eru unnin undir handleiðslu Ottars Helge Johannessen, einum kunnasta grafíklistamanni Noregs. Verkin sýna þróun leturgerðar allt frá því skömmu fyrir Kristsburð til okkar daga. Með verkunum fylgir textablað um sögulega þætti letursins.

Ragnar G. Einarsson
Ragnar er fæddur árið 1947. Hann lauk sveinsprófi í bókbandi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1968 og fékk meistararéttindi 1972. Ragnar hefur starfað við bókband óslitið síðan ásamt því að ná sér í frekari menntun í faginu bæði í Englandi og Danmörku. Ragnar á að baki margar sýningar, bæði erlendis og hér heima, aðallega í Evrópu, Bandaríkjunum og Skandinavíu. Hann er þriðja kynslóð bókbindara í fjölskyldu sinni sem er vel þekkt hér á landi í faginu. Ragnar notast við fjölbreytt efni í verkum sínum sem gerir þau alveg einstök og í raun er engin bók eins.

Guðlaug Friðriksdóttir
Guðlaug er fædd árið 1947. Hún stundaði bókbandsnám við Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi árið 1990. Guðlaug stundaði jafnframt nám á listabraut FB árin 1991-1994. Guðlaug og Ragnar störfuðu saman í nokkur ár í bókbandsstofu Landsbókasafnsins við Hverfisgötu og hafa þau rekið eigin bókbandsstofu, Bóklist, og haldið þar m.a. námskeið fyrir almenning. Guðlaug lagði stund á myndlist og hönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík og Myndlistarskóla Kópavogs ásamt því að sækja fjölda námskeiða til m.a. Ítalíu, Slóveníu og Danmörku auk masterclass-námskeiða hjá Bjarna Sigurbjörnssyni og Serhiy Savchenko. Hún hefur haldið á annan tug einkasýninga bæði hér og erlendis og tekið þátt í samsýningum.

Velkomin(n) á sýninguna Letur og List í Gallerí Gróttu, sýningarsal á Bókasafni Seltjarnarness 2. hæð á Eiðistorgi.

Sýningunni lýkur 20. október 2019.