Kynning á námsframboði í dagskóla hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík

Fimmtudaginn 10. nóvember kl.10.00-15.00 verður opið hús í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Opna húsið er sérstaklega ætlað nemendum grunn- og framhaldsskóla sem hafa áhuga á framhaldsnámi í myndlist og hönnun en skólinn býður upp á fjölbreytt nám í dagskóla. Þennan dag verða nemendur við nám samkvæmt stundaskrá og geta gestir skoðað sig um og fovitnast um námið. Myndlistaskólinn í Reykjavík er til húsa á 2. og 3. hæð JL-hússins, Hringbraut 121 í Reykjavík.

Á framhaldsskólastigi býður skólinn, auk stakra áfanga í námskeiðaskóla, upp á:
·         tveggja ára listnámsbraut til stúdentsprófs – fyrir nemendur sem lokið hafa eins árs námi við annan framhaldsskóla
·         árs fornám í grunngreinum myndlistar til undirbúnings fyrir inngöngu í listaháskóla – fyrir nemendur með stúdentspróf af annarri braut en listnámsbraut
·         tveggja ára listnám fyrir nemendur með þroskahömlun sem lokið hafa starfsbraut framhaldsskóla
Fyrir fólk sem lokið hefur stúdentsprófi af listnámsbraut, eða stúdentsprófi og fornámi í myndlist, býður Myndlistaskólinn upp á tveggja ára viðbótarnám* sem lýkur með diplómaprófi. Fjórar námsbrautir eru í boði:
·         keramiki
·         málaralist 
·         teikningu
·         textíl
* Skv. aðalnámskrá framhaldsskóla má í vissum tilvikum meta viðbótarnám á framhaldsskólastigi inn á námsbrautir á háskólastigi. Viðbótarnám við Myndlistaskólann er metið til háskólaeininga af samstarfsháskólum skólans erlendis og geta nemendur sótt um að komast á þriðja ár á BA stigi að loknu námi við skólann.

Til að bóka leiðsögn fyrir nemendahópa vinsamlega hafið samband við Halldóru Ingimarsdóttur, markaðs- og áfangastjóra með því að senda tölvupóst á markadsmal@mir.is. Hún veitir jafnframt nánari upplýsingar um opna húsið í s. 412-3178 eða s. 551-1990. 

Sjá viðburð fyrir opið hús á Facebook.