Jólamarkaðurinn í Heiðmörk opnar um helgina

Jólamarkaðurinn í Heiðmörk opnar um helgina

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir Jólamarkaði í Heiðmörk allar aðventuhelgar kl. 12-17. Löng hefð er fyrir markaðnum en hann hefur verið haldinn árlega frá árinu 2007. Lögð er áhersla á ljúfa og notalega jólastemmningu en á markaðnum selur Skógræktarfélagið jólatré, rekur lítið kaffihús og stendur fyrir handverksmarkaði þar sem gestir geta keypt spennandi vörur til gjafa eða eigin nota beint af handverksfólki. Á handverksmarkaðnum er lögð áhersla á vandað handverk úr náttúrulegum efnum og innlend matvæli og snyrtivörur. Fjölbreyttni handverksins á markaðnum er mikil og því margt spennandi að sjá. Bent er á að ekki eru sömu söluaðilar allar helgar. Þess má einnig geta að trérennismiðir verða með lifandi verkstæði og eldsmiður verður að störfum.

Nánari upplýsingar um Jólamarkaðinn í Heiðmörk má nálgast hér.