Jóladagskrá Árbæjarsafns

Jóladagskrá Árbæjarsafns er ómissandi hluti aðventunnar í borginni enda leitun að stað sem er eins notalegt og skemmtilegt að heimsækja á þessum tíma árs.

Dagskráin er á öllu safnsvæðinu og geta ungir sem aldnir rölt á milli húsanna og fylgst með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla daga. Hrekkjóttir jólasveinar gægjast á glugga og kíkja í potta. Börn og fullorðnir dansa í kringum jólatréð og syngja vinsæl jólalög.

Húsin á Árbæjarsafni bera upprunaleg og skemmtileg nöfn. Í Árbænum sitja fullorðnir og börn með vasahnífa og skera út laufabrauð en uppi á baðstofulofti er spunnið og prjónað. Í Kornhúsinu  búa börn og fullorðnir til músastiga, jólapoka og sitthvað fleira. Í Hábæ er hangikjöt í potti sem gestir fá að bragða á. Í Nýlendu má fylgjast með tréútskurði og í Miðhúsum er hægt að fá prentaða jólakveðju. Í Efstabæ er jólaundirbúningurinn kominn á fullt skrið og skatan komin í pottinn. Í hesthúsinu frá Garðastræti eru búin til tólgarkerti og kóngakerti eins og í gamla daga. Jólahald heldra fólks við upphaf 20. aldar er sýnt í Suðurgötu 7 og í Krambúðinni er  kramarhús, konfekt og ýmis jólavarningur til sölu.            

Fastir liðir:

14:00 Guðsþjónusta í safnkirkjunni.

15:00 Sungið og dansað í kringum jólatréð.

14:00-16:00 Jólasveinar skemmta gestum og taka þátt í söng og dansi í kringum jólatréð.     

Að vanda býður Dillonshús upp á ljúffengar og hefðbundnar jólaveitingar.

Fullorðnir: 1.600 kr.

Börn (17 ára og yngri), ellilífeyrisþegar (67+) og öryrkjar: Ókeypis aðgangur

Menningarkortið veitir ókeypis aðgang að safninu.

Allir velkomnir!