Verk Ásthildar spanna allt frá fínasta damaski yfir röggvarfeldi. Hún er fróðari en flestir um sögu og eiginleika íslensku ullarinnar. Vefari er í beinum tengslum við efnið og gefur verkinu og sjálfum sér tíma til sköpunar.
Fyrir tveimur árum var fatahengi Hönnunarsafns Íslands breytt í opna gestavinnustofu fyrir hönnuði, með vinnu-, sýningar- og söluaðstöðu. Vinnustofudvölin miðast við þrjá mánuði og gefur möguleika á samtali milli gesta safnsins og hönnuðanna. Fyrirkomulagið lífgar upp á safnaumhverfið og gefur innsýn í aðferðafræði og störf hönnuða. Vinnustofudvölin hefur einnig stuðlað að því að víkka tengslanet hönnuðanna, og þeir hafa fengið góða kynningu á sínum verkum. Gestir og starfsfólk safnsins hafa notið þess að vera í góðum félagsskap og skapandi andrúmslofti.