Í sýningunni sameinast kraftar tveggja hönnuða í kringum brattan kamb við upphaf göngu inn í Kollumúla í Lónsöræfum. Þar má sjá nýja fatalínu Milla Snorrason sem heitir Illikambur eftir þessum magnaða stað og skúlptúra Studio Hönnu Whitehead hannaða sérstaklega sem skartgripi fyrir línuna.
llikambur er ný fatalína frá merkinu Milla Snorrason sem kynnt verður á HönnunarMars og heitir hún í höfuðið á á bröttum kambi við upphaf göngu inn í Kollumúla í Lónsöræfum. Það er þarna sem enginn bíll kemst lengra og aðeins tveir jafnskjótir geta borið mann áfram. Lónsöræfi er staður mikillar litadýrðar þar sem líparít berg í nánast öllum litum regnbogans umlykja allt. Hilda Gunnarsdóttir hönnuður Milla Snorrason eyddi 4 dögum sumarið 2017 í rannsóknarvinnu á svæðinu og hefur unnið mynstur út frá náttúrudýrðinni.
Hilda og Hanna Dís hafa þekkst lítillega í nokkur ár og fundið á þeim tíma sterkan og áhugaverðan samhljóm í fegurðarskyni.
Hilda fékk því hönnuðinn Hönnu Dís, sem auk þess er búsett í námunda við Lónsöræfi, í samstarf við sig þar sem hún var viss um þá yrðu mótaðir listrænir skartgripir sem áhugavert væri að sjá mæta kaotísku mynstrinu sem var að fæðast út frá litunum í Lónsöræfum.
Milla Snorrason hefur verið starfandi í fimm ár og sent frá sér jafn margar línur en Hilda leggur áherslu á að nýta form, liti og áferðir úr náttúru Íslands á nýstárlegan hátt í fatahönnun. Hver lína ber nafn þess staðar sem rannsóknarvinnan hefur farið fram á en fyrri línur eru meðal annars Strákagil, Vondugil og Uxatindar. Merkið var valið „Runner up“ á Reykjavík Grapevine Design Awards 2017 í flokknum Fashion Collection of the year.
Hanna Dís Whitehead rekur hönnunarstofu á Suð-Austurlandi en hún einbeitir sér að því að vinna með höndunum á persónulegan hátt með sögur, form, efni og liti þar sem ferlið fær að ráða ferðinni. Vörurnar hennar eru frá því að vera smáar í það að vera stórar- vörur og upp í rými.
Sýningin fer fram í Gallerí Harbinger á Freyjugötu og lýkur um helgina. Sýningarstjóri er Karitas Möller arkitekt.