Handverksnámskeið

Handverksnámskeið

Námskeiðsdagskrá Heimilisiðnaðarskólans fyrir vorið 2017 er komin út (sjá hér). Að venju eru mörg spennandi námskeið í boði, allt frá örnámskeiðum upp í 12 vikna námskeið.  Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda fjölbreytni námskeiða mikil.

Örnámskeið sem aðeins vara eina kvöldstund hafa notið vinsælda en á slíkum námskeiðum má læra að spinna á halasnældu, vattarsaum, flétta kaffipoka, knipla, gimba, sápugerð og endurvinna gamlar gallabuxur eða plastpoka.

Sokkaprjón, prjónatækni, tvíbandavettlingar og frágangur á prjónaflíkum eru á meðal prjónanámskeiða. Auk þess er boðið upp á dúkaprjón á helgarnámskeiði sem er nýjung. Þeir sem vilja læra að hekla geta nýtt sér byrjendanámskeið í hekli.

Útsaumsnámskeið eru tvö til þrjú kvöld en þar eru í boði harðangur og klaustur, refilsaumur eða gamli krosssaumurinn. Knipl og orkering eru á sínum stað en hvoru tveggja eru aðferðir við blúnduferð þó ólíkar séu.

Vefnaður hefur notið vinsælda undanfarin misseri en boðið er upp á bæði styttri og lengri námskeið. Myndvefnaður og spjaldvefnaður eru einnig spennandi form vefnaðar. Körfuvefnaður hefur notið vinsælda auk þess sem skáfléttun kaffipoka sameinar endurvinnslu og fallegt handverk.

Af þjóðlegum námskeiðum má nefna tóvinnu þar sem nemendur læra gömul vinnubrögð við ullarvinnslu. Í byrjun sumars verður svo boðið upp á sígilt námskeið í jurtalitun og þegar líður á júnímánuð er fimm daga námskeið í vefnaði.

Þá eru ótalin fjölmörg námskeið í gerð þjóðbúninga og handverki tengdu þeim. Þjóðbúningasaumur, handlínur, undirpils við þjóðbúninga, lissuskyrtur, útsaumur í peysufatabrjóst, baldýring og flauelsskurður eru þar á meðal.

Velkomin á námskeið! – www.heimilisidnadur.is - skráning á námskeið á netfangið skoli@heimilsidnadur.is eða í síma 551 5500.