Guðjón Ketilsson: Jæja

Yfirlitssýningin Jæja með verkum Guðjóns Ketilssonar stendur yfir á Kjarvalsstöðum.

Guðjón hefur komið víða við á löngum ferli og hefur einkum lagt stund á skúlptúr en teikning leikur einnig stórt hlutverk í listsköpun hans. Í verkum Guðjóns er áhersla á handverk áberandi, enda eru verk hans kunn fyrir listfengi, hugvitsemi og alúð.
Guðjón Ketilsson hefur komið víða við á löngum ferli. Einkum hefur hann lagt rækt við skúlptúr en teikning leikur einnig stórt hlutverk í listsköpun hans. Í verkum hans er áhersla á handverk áberandi, enda eru verk hans kunn fyrir listfengi, hugvitsemi og alúð. Manneskjan er þar fyrir miðju, líkaminn og framlenging hans í gegnum föt og verkfæri, sem og híbýli og annað í hennar nánasta umhverfi. Þessu miðlar Guðjón með áhrifaríku samspili nærveru og fjarveru, efniskenndar og tómarúms, yfirborðs og inntaks. Þá er tungumálið veigamikill þáttur, síður út frá merkingu orðanna og fremur tengt heimi táknfræðinnar, þar sem samhengi stakra og ólíkra tákna dregur fram heildstæða merkingu.
Á yfirlitssýningu um listferil Guðjóns er von á ýmsu. Þar má sjá skúlptúra samsetta úr fundnum húsgögnum sem hann hefur meðhöndlað á sinn einstaka hátt, fínpússaða trémuni sem líkjast fáséðum nytjahlutum á minjasafni, hárnákvæmar teikningar af líkamspörtum, hús og byggingar af öllum gerðum, samsafn af drasli sem hann hefur viðað að sér og raðað upp í eina heild, ljósmyndir af uppröðuðum munum og fatnað – allskonar fatnað útskorinn í tré, eins og skó, lendarskýlur og hatta. Öll eru verkin á mannlegum skala, þau spretta úr samspili hugar og handar og virka eins og framlenging á manneskjunni.
Guðjón Ketilsson er fæddur 1956 og er sjötti listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi.
Sýningin stendur yfir til 15. janúar 2023.
Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.