Endurofið - rannsókn á vaðmáli framtíðarinnar

Endurofið er verkefni sem rannsakar möguleika á að skapa vaðmál framtíðarinnar úr fötum sem Íslendingar eru hættir að nota. Markmið verkefnisins er að gera handverkshefðinni og menningararfleifð vaðmálsins hátt undir höfði, á sama tíma og vakin er athygli á umhverfisvánni sem stafar af textíliðnaðinum.

Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnið af Ásu Bríeti Brattaberg, fatahönnunarnema, og Álfrúnu Pálmadóttur, þjóðfræðinema. Leiðbeinendur eru Ólafur Rastrick og Ragna Fróðadóttir.

Í verkefninu eru skoðaðar sjálfbærar leiðir til þess að vefa nýjan textíl og fatnað úr fatnaði sem er annað hvort ónýtur eða úr notkun. Mikið af þeim fatnaði sem fer í söfnunargáma er sendur erlendis til urðunar og í verkefninu eru skoðaðir þeir möguleikar sem eru til staðar umfram urðunina, sem staðbundinn efniviður. Unnið er að því að safna fötum til úrvinnslu, ef þú átt eftir að fara í vorhreingerningu eða átt jafnvel tilbúinn poka með fötum sem hefur ekki ratað í söfnunargáma ennþá er það vel þegið í verkefnið.

Verkefninu verður fylgt eftir í Facebook hópi og á Instagram og eru áhugasamir hvattir til að verða hluti af Facebook hópnum og fylgja „Endurofið“ á Instagram. Þar er hægt að fylgjast með ferlinu sjálfu, áhugaverðu lesefni og upplýsingum. Þar er einnig hægt að hafa samband ef þú átt föt sem þú vilt gefa verkefninu.