Listrænt prjón og tungumál eldsins

Sigrún Hín Sigurðardóttir opnar sýningu sína, Eldskírn, í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 9. september kl. 16-18. Sigrún Hlín vinnur fyrst og fremst með textíl, texta og teikningar. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Háskólanum í Bergen vorið 2021. Sigrún hélt nýlega fyrstu einkasýningu sína, Biting My Time, í Bergen og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og listrænum verkefnum. Eldskírn er því önnur einkasýning Sigrúnar og sú fyrsta á Íslandi.

Á sýningunni Eldskírn eru handprjónuð textílverk og hljóðverk. Viðfangsefnið er myndlíkingar og vangaveltur um eld, ekki síst um stöðu eldsins í tungumálinu. Textílverkin hanga úr loftinu og sýna mismunandi brennandi fyrirbæri. Í rýminu hljómar rödd sem les upp lista brennandi fyrirbæra sem skapar myndir í huga áheyrenda.

Síðasti sýningardagur er 7. október. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin. Listasalur Mosfellsbæjar er í Kjarna, Þverholti 2 í Mosfellsbæ. Opið er kl. 9-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum.

Hægt er að ná í Sigrúnu í síma 690 8869.