Listaverk í bleikum ljóma

Postulínsbrjóstahöld eftir Þórdísi Sigfúsdóttur
Postulínsbrjóstahöld eftir Þórdísi Sigfúsdóttur

Listaverk í bleikum ljóma
í Gallerý Grásteini Skólavörðustíg 4

Í tilefni af bleikum október hafa listamennirnir í Gallerý Grásteini við Skólavörðustíg 4 útbúið bleikt listahorn, sýningarglugga og vegg, með listaverkum sem tileinkuð eru þessum mánuði og bleika deginum 15. október. Fallegum bleikum litum bregður fyrir í verkunum eða þau vísa á annan hátt til kvenna og baráttunnar við krabbamein. Bleik blóm skarta sína fegursta í málverkunum, fjöllin eru sveipuð roðableikum blæ og blómahaldarar úr keramik hafa tekið á sig mynd brjósta í brjóstahaldara. Með þessu vilja listamennirnir tólf sem reka Gallerý Grástein lýsa yfir stuðningi sínum og samstöðu með öllum konum sem greinst hafa með krabbamein og rennur ágóði af sölu verkanna í bleika horninu til baráttunnar við þennan vágest.

Föstudaginn 15. október kl. 15-18 verður bleik móttaka í Gallerý Grásteini og verða listamennirnir á staðnum. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir eru velkomnir.

Gallerý Grásteinn er fjölbreytt listagallerý á tveimur hæðum í gömlu friðuðu húsi úr tilhöggnu grágrýti í hjarta Reykjavíkur. Þar eru vatnslitamyndir eftir Árnýju Björk Birgisdóttur og Guðrúnu Hreinsdóttur, olíumálverk eftir Álfheiði Ólafsdóttur og Rúnu K. Tetzschner, ljósmyndir eftir Pálma Bjarnason og Sigrúnu Kristjánsdóttur, þæfð ullarverk eftir Steinunni Steinars, skartgripir eftir Gerðu Kristínu Lárusdóttur, glerlist eftir Nadine Cécile Martin og keramik eftir Þórdísi Sigfúsdóttur, Jorinde Chang og Sif Jónsdóttur. Á efri hæð Gallerýs Grásteins eru jafnan sérsýningar og þar stendur nú yfir sýning á ullarverkum danska listamannsins og Íslandsvinarins Ida Israelsen.

Opið er í Gallerý Grásteini mánudaga til laugardaga kl. 10-18 og sunnudaga kl. 11-17.

Smelltu hér til að sjá nánar um Listaverk í bleikum ljóma  á Facebook