Hringferli í Mjólkurbúðinni

Ragnheiður Björk Þórsdóttir veflistakona hefur opnað sýninguna HRINGFERLI í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélags Akureyrar í Kaupvangsstræti 12 á Akureyri.

Verkin á sýningunni eru ofin í myndvefnaðarstól, vefstól eða stafrænum vefstól og unnin á þessu ári. Sýningin stendur yfir frá 16.-24. október og er opin frá kl. 14-17 um helgar, en hafa má samband við Ragnheiði í síma 8475133 til að sjá hana virku dagana.

Viðfangsefni Ragnheiðar á þessari sýningu er uppbygging og áferð vefnaðarins og hvernig þáttur uppistöðu og ívafs breytist við val á aðferðum sem notaðar eru í ferlinu. Hún nýtir sér bæði hliðrænar (analog) og stafrænar (digital) aðferðir við vefinn til að ná fram ákveðnu hringferli í verkunum og ferðast þannig frá hinu einfalda til hins flókna. Ragnheiður hefur lengi rannsakað vefnaðarmunstur og uppbyggingu þeirra, setti upp rafrænan gagnagrunn í vefnaði fyrir Textílmiðstöð Íslands og skrifaði bókina Listin að vefa.

Ragnheiður er með vinnustofu á Grenivík og er í hlutastarfi sem sérfræðingur á sviði vefnaðar og stafrænum vef hjá Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi.

Smelltu hér til að sjá nánar um sýninguna á Facebook